Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Appelsínugul viðvörun á Vestfjörðum til miðnættis

17.07.2020 - 06:57
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands
Appelsínugul viðvörun verður í gildi vegna mikillar úrkomu á Vestfjörðum til miðnættis í kvöld. Búast má við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum, og samkvæmt Veðurstofunni mælist rennsli í Hvalá í Ófeigsfirði yfir 200 ára flóðþröskuldi.

Hætta er á að vöð verði ófær og varað er við hættu á skriðum og grjóthruni. Á Vestfjörðum er einnig í gildi gul viðvörun vegna hvassviðris til klukkan 20:00 í kvöld. Búast má við vaxandi norðaustanátt 15-23 m/s síðdegis, og norðanátt 13-20 m/s á morgun. Í nótt mældust vindhviður mest 40 m/s á Vestfjörðum.

  • Gul viðvörun er í gildi vegna hvassviðris á Breiðafirði til klukkan 20:00 í kvöld. Þar má búast við hvassri norðaustanátt, 13/20 m/s, og sérstaklega snörpum vindhviðum við fjöll. Vindhviður mældust mest 40 m/s á Breiðafirði í nótt.
  • Slæmt veður er til útivistar á Ströndum og Norðurlandi vestra en þar verður í gildi gul viðvörun vegna vinda til klukkan 18:00 á morgun. Hvöss norðaustanátt og mikil úrkoma. Gera má ráð fyrir auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum og varað er við hættu á flóðum og skriðuföllum. 
  • Á Norðurlandi eystra gildir gul viðvörun vegna úrkomu til miðnættis annað kvöld. Spáð er talsverðri eða mikilli rigningu, sérstaklega vestantil og þar er einnig varað við auknu afrennsli og vatnavöxtum sem eykur hættuna á flóðum og skriðuföllum. 

Veðurstofan minnir fólk á að huga að niðurföllum til að forðast vatnstjón.