Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Ansi haustlegt og vont veður miðað við árstíma

17.07.2020 - 08:21
Mynd: Halla Ólafsdóttir / RÚV
Það fer ekki að draga úr rigningu fyrr en seinni part dags á morgun og leiðindaveður verður fram á sunnudag, segir Arnór Tumi Jóhannsson veðurfræðingur. Vindur fer vel yfir 30 metra á sekúndu í hviðum þar sem veður er verst, á Vestfjörðum og norðvestanverðu landinu. Arnór Tumi segir að þar sé mikið votviðri og ekkert ferðaveður.

Mjög hvasst og  blautt hefur verið á Vestfjörðum og Ströndum. Appelsínugul viðvörun verður í gildi vegna mikillar úrkomu á Vestfjörðum til miðnættis í kvöld. Búast má við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum, hætta er á að vöð verði ófær og varað er við hættu á skriðum og grjóthruni. Gul viðvörun er í gildi víða á svæðinu vegna úrkomu og vinda. 

Arnór Tumi Jóhannsson veðurfræðingur er á vakt á Veðurstofunni. „Nú er veðrið verst á Vestfjörðum og norðvestantil á landinu. Þar er all hvasst og sums staðar hvasst. Vindur fer vel upp fyrir 30 metra á sekúndu í hviðum. Þar er talsverð rigning, mikið votviðri og ekkert ferðaveður.“

„Það hefur rignt mjög mikið, sums staðar er slydda og hefur snjóa í fjöll,“ sagði Arnór Tumi í morgunfréttum RÚV. „Þetta er ansi haustlegt og ansi leiðinlegt og vont veður miðað við árstíma.“

Áfram verður ansi hvasst á norðvestanverðu landinu og nokkuð sterkur vindur vestan til á landinu. „Það mun bæta væntanlega í vind á Snæfellsnesinu í dag og verður hviðóttur vindur víða. Það rignir ansi mikið áfram og það fer ekki að draga mikið úr henni fyrr en seinni partinn á morgun,“ sagði Arnór Tumi.

Lægðin sem veldur vonda veðrinu er á leið austur og eftir því sem hún færist austar magnast vindur á norðaustanverðu landinu. 

„Þetta verður leiðindaveður áfram fram á sunnudag,“ sagði Arnór Tumi.