Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Áframhaldandi úrkoma á Tröllaskaga þar til annað kvöld

17.07.2020 - 21:53
Mynd með færslu
 Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Gul veðurviðvörun verður í gildi á Vestfjörðum, Norðurlandi vestra og eystra og Suðausturlandi á morgun. Samkvæmt Veðurstofu Íslands á enn eftir að falla töluverð úrkoma á Norðurlandi og norðan til á Vestfjörðum og mun halda áfram að rigna þar fram eftir morgni. 

Á Tröllaskaganum heldur úrkomuákefðin áfram fram eftir degi og ekki fer að stytta upp þar fyrr en seint annað kvöld.

Að sögn Hrafns Guðmundssonar, vakthafandi veðurfræðings, má gera ráð fyrir að að minnsta kosti 80 mm úrkoma eigi eftir að bætast við á Tröllaskaganum, en fyrr í dag mældist úrkoma undanfarins sólarhrings á því svæði 117 mm.

Þó þurrt verði á Austur- og Suðausturlandi er gul veðurviðvörun einnig í gildi þar og varar Veðurstofan við snörpum hviðum austan öræfa og á sunnanverðum Austfjörðum. Búast má við hviðum á bilinu 25-30& m/s og verður því ekkert ferðaveður fyrir húsbíla og þunga aftanívagna á þeim slóðum.