Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Á milli heims og helju

Mynd með færslu
 Mynd: Facebook - Rúnar Þórisson

Á milli heims og helju

17.07.2020 - 15:12

Höfundar

Ferjumaðurinn er ný plata eftir Rúnar Þórisson en þar er m.a. lýst hildi þeirri sem Rúnar háði við sjálfan manninn með ljáinn á dögunum. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn sem jafnframt er plata vikunnar á Rás 2.

Síðasta plata Rúnars, Ólundardýr, kom út 2015, og safnaði saman lögum sem hann hafði gefið út mánaðarlega það ár. Sú plata er einstaklega vel heppnuð, afar persónuleg, en hún er tileinkuð minningu föður hans. Ég fékk tækifæri til að skrifa um hana á þessum vettvangi og sagði m.a. „Þetta er um leið „harðasta“ plata Rúnars til þessa, minna er um melódísk lög og snoturheit, framvindan er þess í stað nokkuð framsækin og tilraunablær leikur um flest lögin ... Kraftmeiri smíðarnar flæða taktvisst áfram, oft eru þau draumkennd þar sem epísk ris lyfta þeim skýjum ofar.“ Vinna við þessa plötu hér hófst fyrir fjórum árum síðan en eftir að Rúnar var hætt kominn eftir sjósund tók hún, umfjöllunarlega séð, á sig mynd þar sem líf og dauði eru mikið til umræðu. Ferjumaðurinn er auðvitað Karon, sá sem flutti sálir látinna yfir í nýjan heim. Rúnar var kominn hálfa leið yfir en bjargaðist, Guði sé lof. Textar og lagatitlar („Við sólsetur“, „Ég skal ná til þín“, „Féll í sandinn“) undirstrika þetta. Valinn maður er í hverju rúmi hvað flutning varðar. Dætur Rúnars, Margrét og Lára syngja og tengdasonur hans Arnar lemur húðir. Tómas Jónsson leikur á hljómborð og Guðni Finnsson spilar á bassa.

Lögmál

Eins og með allar sólóplötur Rúnars lýtur þessi eigin lögmálum og er illa sambærileg við nokkuð annað sem í gangi er. Platan opnar t.d. með titillaginu, rólyndisstemma, melódísk og draumkennd. Bakraddirnar styðja við vissa handanheimsstemningu. En strax í næsta lagi, „Við sólsetur“, verður leiðin torfærari. Skringilegur gítar og ákveðinn, taktmikil framvinda (frábærar trommur hjá nafna). „Allt það besta“ er blítt en „BETUR“ (svo) er vel tilraunabundið og með snilldarlegum kuldagítar sem ber öll einkennismerki höfundar. Æsilegt píanó líka frá Tómasi. Svo má telja, út verkið. „Segðu“ mér er hálfgert reggí á meðan „Hvernig sem fer“ er hnarrreistur lokaópus. Mér finnst eins og Rúnari sé að verða æ meira ágengt með að hefla til og sníða algerlega einstakan stíl, verður með öðrum orðum betri í því með hverju verki. Ry Cooder varð á orði einu sinni, „ég stóð í þeirri trú að maður yrði betri í því sem maður er að gera með árunum“ og á sú setning vel við hér. Vitandi um þann atburð sem mótaði textana hérna þá rennur platan í samfellu. Það er upptaktur, skil, úrvinnsla, niðurlag. Rúnari tekst glettilega vel að stefna saman blíðum, fallegum stefjum og erfiðum, myrkari og skrítnari sem tala til, ímynda ég mér, allra þeirra mismunandi hliða sem felast í svona rússíbanareið. Hræðslan, feginleikinn, áfallið, elskan. Allt þetta og meira til. Allt í allt, hið stöndugasta verk hjá Rúnari og hans fólki.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Að endimörkum alheimsins

Popptónlist

Hvöss og rífandi nýbylgja

Leiklist

Bubbi inn við beinið: Kraftmikil og mögnuð sýning