Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vilja ólmir taka upp kvikmyndatónlist á Akureyri

Mynd: RÚV / RÚV

Vilja ólmir taka upp kvikmyndatónlist á Akureyri

16.07.2020 - 12:20

Höfundar

Framleiðendur Netflix-sjónvarpsþátta og Hollywood-kvikmynda flykkjast norður á Akureyri til að taka upp kvikmyndatónlist í samstarfi við SinfoniaNord-verkefnið. Síðan tónskáldin Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson og Atli Örvarsson fóru af stað með verkefnið árið 2014 hefur SinfoniaNord komið að gerð um þrjátíu slíkra verkefna. „Þegar að þú stenst „testið“ hjá þessum háu herrum í þessum bransa, þá getur allt gerst.“

Þetta sagði Þorvaldur Bjarni í Morgunútvarpi Rásar 2. Meðal verkefna SinfoniaNord má nefna Netflix-kvikmyndina Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga, Hollywood-myndina The Old Guard og sjónvarpsþætti á borð við Vikings, Informer og náttúrulífsþætti Davids Attenboroughs.

Snjóboltinn fór snemma að rúlla

„Annað verkefnið sem við fengum var Hollywood-mynd sem Atli Örvarsson tónskáld var að gera tónlist við sem varð bara „blockbuster“ í Bandaríkjunum nokkrum vikum seinna. Svoleiðis sprengja náttúrulega býr til svona, hvað á maður að segja, snjóbolta-áhrif,“ segir Þorvaldur Bjarni og á þar við um sálfræðitryllinn The Perfect Guy, sem kom út árið 2015.

Þá hafi SinfoniaNord tekið að sér stærsta verkefni sitt hingað til í gær. Von sé á um „hundrað manna her“ norður, meðal annars stórtónskáldi og um 85 manna sinfóníu, að taka upp tónlist fyrir nýtt verk á næstunni. Þorvaldur segist þó ekkert mega gefa upp um það hverjir það eru eða hvert verkefnið er.

Todmobile á von á góðum gestum

Fram undan hjá Þorvaldi Bjarna er svo áframhaldandi tónleikaröð Todmobile. Þar fær hljómsveitin tónlistarmenn, sem hafa haft áhrif á þau í gegnum tíðina, til að taka með sér lagið. Steve Hackett, Jon Anderson, Nik Kershaw og Midge Ure hafa verið gestir þeirra hingað til. Þorvaldur Bjarni tilkynnti í Morgunútvarpinu að næst myndi Tony Hadley, söngvari Spandau Ballet, stíga með þeim á svið.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

COVID ráðgjafar nýja starfstéttin í Hollywood

Kvikmyndir

Fjórar Hollywood-myndir með augastað á Íslandi

Klassísk tónlist

„Að vera í Hofi er eins og að lifa James Bond-mynd“

Norður Ameríka

Sjónvarp- og kvikmyndaframleiðsla í frosti - nánast