Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Vilja bæta önnur úrræði en fangelsisvist

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Aukin samfélagsþjónusta og fjölgun úrræða til að leysa mál án ákæru eru meðal tillagna sem starfshópur um styttingu boðunarlista til afplánunar refsinga vann fyrir dómsmálaráðherra.

Bið eftir afplánun hefur lengst mikið seinustu tíu ár. Helstu ástæður þess er fjölgun og lenging óskilorðsbundinna dóma, fjölgun gæsluvarðhaldsfanga og skortur á fjármagni til fangelsismála.  Helmingur þeirra sem bíða eftir að taka út refsingu var dæmdur fyrir umferðarlagabrot og hefur meðalbiðtími frá dómsuppkvaðningu til afplánunar hefur lengst úr tæpum fimm mánuðum árið 2010 í tæpa 17 mánuði árið 2019. Með lengri biðtíma aukast þau brot sem fyrnast. Þeim hefur fjölgað mikið seinustu ár.  

Unnið er að því að stytta boðunarlista til afplánunar auk þess að hagræða í rekstri Fangelsismálastofnunar. Meðal aðgerða er að loka fangelsinu á Akureyri. Starfshópur á vegum dómsmálaráðuneytis hefur síðan í vor unnið að tillögum til að stytta boðunarlista. 

Samfélagsþjónusta í stað fangelsisvistar

Í skýrslunni er bent á ýmsa möguleika innan réttarvörslukerfisins. Til að mynda að rýmka heimild til að taka út refsingu með samfélagsþjónustu. Þannig megi þeir sem hljóta tveggja ára óskilorðsbundna dóma eða styttri taka út refsingu með samfélagsþjónustu. Þá er einnig lagt til að heimildir til að beita sáttamiðlun verði auknar, það er að brotaþoli og sakborningur ljúki máli sín á milli án þess að gefin sé út ákæra. Það fari eftir eðli hvers máls hvort að það henti.  Ákvæði eru ekki skýr í lögum um hvernig skuli beita þessu úrræði og hvetur starfshópurinn til þess að þar verði bætt úr. Með sáttamiðlun sé unnt að stytta verulega málsmeðferðartíma og stytta boðunarlista til muna.

Sáttamiðlun dregist saman

Áður fyrr var sáttamiðlun beitt innan lögreglunnar, en seinustu ár hefur þeim tilfellum fækkað verulega. Í skýrslunni kemur fram að skýringin sé sú að verklag í ákveðnum brotaflokkum hafi tekið tíma frá rannsóknarlögreglu, sem séð hafi um sáttamiðlunina, auk þess sem ekki hafi verið haldin námskeið fyrir nýja sáttamenn. 

Þá leggur starfshópurinn til að fjármagn verði aukið til fangelsismála. Það geti bætt nýtingu plássa í fangelsum. Einnig breytingar á reynslulausn og veitingu náðunar til þeirra sem hafa verið boðunarlista í meira en 3 ár fyrir minni háttar brot.

Lesa má skýrsluna í heild sinni hér.