Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Vestfirðingar hvattir til að huga að lausamunum

16.07.2020 - 19:23
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Mikil úrkoma og vindur er á Vestfjörðum og spáð er áframhaldandi óveðri þar að minnsta kosti næsta sólarhringinn.Veðurstofa Íslands gaf út appelsínugula viðvörun fyrir svæðið fyrr í dag og lögregla hvetur íbúa á svæðinu til að huga að lausamunum.

Þetta kemur fram í facebook-færslu lögreglunnar á Vestfjörðum. Þar eru vegfarendur ennfremur hvattir til að gæt vel að þegar þeir aki undir bröttum hlíðum þar sem leysingavatn er í örum vexti. Auknar líkur eru á grjóthruni og aurskriðum.

Þá segir lögregla í færslu sinni að óráðlegt sé að fara um með hjólhýsi eða aðra eftirvagna sem taka á sig mikinn vind.

Nokkur fjöldi fólks er í Hornstrandafriðlandinu en ekki er vitað til þess að neinn sé í hættu þar eða miklum vanda. Einhverjir hafa leitað skjóls í neyðarskýlum, að því er segir í facebook-færslunni. Þá er fólk hvatt til að fylgjast með upplýsingum um veður og ástand vega.