Úrhelli spáð og hætta á grjóthruni og skriðuföllum

16.07.2020 - 12:13
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Spáð er úrhelli á norðanverðum Vestfjörðum og Ströndum í kvöld og á morgun og gæti sólarhringsúrkoman náð á annað hundrað millimetra. Hætta er á grjótrhuni og skriðuföllum í svona mikilli rigningu, segir veðurfræðingur

Djúp lægð, miðað við sumartímann, gengur yfir landið í dag og dregur eftir sér norðanátt. Gul viðvörun tekur gildi fyrir Vestfirði og Norðvesturland núna klukkan eitt og má búast við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum. 

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur, segir að veðrið verði verst á Ströndum og Vestfjörðum. „Það kemur til með að rigna einhver lifandis býsn, á annað hundrað millimetra og það er vitanlega hætta á grjóthruni og skriðuföllum þegar svona mikið rignir. Þetta eru einkum tvö svæði, norðanverðir Vestfirðir og norður Strandir.“ Það eigi síðan einnig eftir að rigna á morgun  og fram á laugardag, sérstaklega við utanverðan Tröllaskaga og þar sé sama hætta til staðar.

Hann bendir á að það hafi verið þurrt síðustu vikur og því þurfi minna til að koma grjóti af stað. Veðrinu fylgir einnig hvassviðri og Einar nefnir þar sérstaklega Breiðafjörð, sunnanvert Snæfellsnes og svo Kjalarnes í fyrramálið. 

Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur, sagði á Twitter í gær að það yrði varasamt að vaða yfir ár, til dæmis á Laugaveginum og Hornströndum og rigningin yki skriðuhættu, ofan á þá skriðuhættu sem væri fyrir vegna jarðskjálfta. 

Nú væri ekki rétti tíminn til að birta myndir af fólki á löngum göngum á samfélagsmiðlum með þeim orðum að veður sé bara hugarfar. Slíkt gæti beinlínis verið hættulegt og grafið undan skilaboðum Veðurstofunnar og Almannvarna til ferðafólks og almennings.

Einar tekur heilshugar undir þessi varnaðarorð. „Stundum er sagt á Íslandi á sumrin að þetta sé bara spurning um að klæða sig eftir veðri en nú er þetta meira að komast í skjól.“
 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi