Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Uppsagnir flugfreyja hafa ekki verið afturkallaðar

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór - RÚV
Enginn fundur hefur verið boðaður í kjaradeilu flugfreyja og Icelandair, en síðast var fundað hjá ríkissáttasemjara á þriðjudaginn. Engar óformlegar viðræður hafa heldur farið fram að sögn Guðlaugar Líneyjar Jóhannsdóttur, formanns Flugfreyjufélags Íslands, og engar uppsagnir verið afturkallaðar. Flugfreyjur hjá Icelandair hafa nú verið samningslausar frá 1. maí 2018.

„Það er mikil óvissa meðal flugfreyja varðandi framhaldið og áframhaldandi ráðningar,“ segir Guðlaug, en Icelandair sagði um 95% flugfreyja sinna upp í lok apríl. Hún segir að fregnir af því að félagið hafi afturkallað uppsagnir 114 flugmanna veki vonir um að það sama verði gert varðandi uppsagnir flugfreyja.

„Það hlýtur þá að haldast í hendur að það sama verði gert varðandi flugfreyjur. Það þarf að manna vélarnar sem þessir flugmenn eiga að fljúga,“ segir Guðlaug.

Hún segist ekki vita til þess að Icelandair hyggist láta reyna á forgangsréttarákvæði Flugfreyjufélags Íslands fyrir félagsdómi og ráða flugfreyjur utan félagsins til starfa, náist samningar ekki. Hún segir að flugfreyjur séu „fullar samningsvilja“ og séu tilbúnar til áframhaldandi viðræðna.

Mynduð þið vita ef málið væri komið í þann farveg? „Já, ég tel að við myndum vera upplýst um það.“