Tískubransinn færist nær stafrænni framtíð

Mynd með færslu
 Mynd: Reebok / Lil Miquela - Instagram

Tískubransinn færist nær stafrænni framtíð

16.07.2020 - 12:51
Tískusýningar í sýndarveruleika og módel sem eru bara til á netinu gætu verið framtíðin í tískubransanum. Heimsfaraldur og reglur um samskiptafjarlægð hafa opnað nýjar dyr og nýja möguleika þegar kemur að tískusýningum, sem hafa haldist að mestu leyti óbreyttar í nær fimmtíu ár.

Tískuhús og hönnuðir hafa á síðustu mánuðum þurft að finna leiðir til að sýna framleiðslu sína á meðan ekki eru haldnar tískuvikur og tískusýningar eru ekki í boði. Margir hafa snúið sér að sýndarveruleika og rafrænum sýningum þar sem engin þörf er fyrir raunveruleg föt eða fyrirsætur. Anifa Mvuemba, hönnuður, vakti gífurlega athygli fyrir þrívíða tískusýningu sína á Instagram nú í maí. Hugmyndin hafði blundað lengi í kollinum hennar og hún ákvað að læra þrívíða hönnun í gegnum Google og YouTube. Þegar heimsfaraldurinn braust út sá hún svo tilvalið tækifæri til þess að láta sýninguna verða að veruleika.

Sýningin vakti mikla athygli, hún var sögð hugmyndarík og söguleg af áhorfendum. Það sem vakti hvað mesta athygli var að engar fyrirsætur gengu eftir þrívíðum sýndarveruleika tískupallinum heldur gengu fötin, að því er virðist, ein og óstudd, líkt og ósýnilegar fyrirsætur klæddust þeim. 

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

A post shared by Hanifa (@hanifaofficial) on

Stafrænir Instagram-áhrifavaldar og fyrirsætur hafa einnig verið að þróast síðustu ár og orðið sífellt vinsælli. Ein sú vinsælasta í bransanum um þessar mundir er Lil Miquela. Hún er með tvær og hálfa milljón fylgjenda á Instagram og hefur gefið út sína eigin fatalínu, verið fyrirsæta fyrir Calvin Klein og skrifaði undir hjá umboðsskrifstofunni CAA í maí. Þetta væri kannski ekki merkilegt nema fyrir þær sakir að Miquela er ekki til í alvörunni heldur einungis í stafrænum veruleika. 

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

A post shared by Miquela (@lilmiquela) on

Reebok og Chromat nýttu sér stafræn módel í kynningu á samstarfi sínu í maí og þá voru fatahönnuðir á borð við Valentino, Önnu Sui og Sandy Liang hluti af tískusýningu sem fór fram í stafrænum veruleika tölvuleiksins Animal Crossing. 

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

A post shared by CHROMAT (@chromat) on

En hvað þýðir þessi þróun fyrir fyrirsætur? Einhverjir telja að það verði alltaf þörf fyrir mannlegar og raunverulegar fyrirsætur en sumir segja það besta sem fyrirsætur geti gert í dag sé að búa til stafræna útgáfu af sér sem hægt sé þá að nota í stafrænum tískusýningum og myndatökum. Þróunin sé hins vegar að miklu leyti jákvæð fyrir umhverfið, stafrænar sýningar kosti minna, gefi yngri hönnuðum tækifæri og geti verið aðgengilegri. 

Tengdar fréttir

Hönnun

Fyrsta tískusýningin í stafrænum heimi Animal Crossing

Menningarefni

Stafrænar flíkur framtíðarinnar