Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Sveitarfélagið vinnur að því að húsið uppfylli lög

Mynd með færslu
 Mynd: Landinn - RÚV
Ragnar Frank Kristjánsson, sviðsstjóri umhverfis- og skipulagssviðs Borgarbyggðar, segir að lýsing á aðalskipulagi sé í farveginum sem geti gert legsteinaskála Páls á Húsafelli löglegan. „Það var alltaf markmiðið að gera þetta löglegt síðan 2016,“ sagði Ragnar.

Í fyrradag dæmdi héraðsdómur Vesturlands Pál á Húsafelli, myndhöggvara, til að rífa skála sem hýsir legsteinasafn forfeðra sinna. Hann var sýknaður af kröfu um að rífa annað hús sem hann byggði einnig á lóðinni og er á meðfylgjandi mynd. Það er kallað pakkhúsið og þótti samræmast núverandi aðaldeiliskipulagi.

Listamaðurinn hefur verið með menningarstarfsemi á landi sínu um árabil og hýsir pakkhúsið vinnustofu Páls.

Nýtt aðalskipulag verði samþykkt í haust

„Nú í augnablikinu er verið að auglýsa lýsingu á aðalskipulagi þar sem verið er að færa landið sem húsin standa á í flokkinn verslun og þjónusta,“ sagði Ragnar í samtali við fréttastofu. Lýsingin var tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs í maí. Frestur til að skila inn athugasemdum rennur út á mánudaginn. Engar athugasemdir hafa borist. Hann gerir ráð fyrir að málinu ljúki í haust.

Hingað til hefur starfsemi landsins flokkast undir landbúnað samkvæmt aðalskipulagi. Á þeim grundvelli féll dómurinn í Héraðsdómi Vesturlands í fyrradag þar sem deiliskipulag og aðalskipulag samrýmdust ekki.

Upphaflega, þegar deiliskipulag landeiganda var samþykkt var tekin ákvörðun um að ekki þyrfti að breyta aðalskipulaginu. Síðar hafi komið á daginn að það samrýmdist ekki lögum. 

„Hugur okkur er að landeigandi á þetta land og hann óskar eftir ákveðinni landnotkun á því. Þá er það bara stjórnsýslunnar verkefni að færa þetta upp í þá stöðu sem er þar í dag.“  Ragnar segir að árið 2008 hafi ekki verið stafkrókur um ferðaþjónustu í aðalskipulagi og þess vegna sé verið að endurskoða aðalskipulagið. Það sé ekki óeðlilegt.

Ragnar segist ekki þekkja til hvers vegna það hafi misfarist að auglýsa deiliskipulagsbreytingar í Lögbirtingablaðinu á sínum tíma. Það var fyrir hans tíð. Hann bendir á að Skipulagsstofnun hafi einnig samþykkt deiliskipulag landeiganda án þess að breyta aðalskipulagi.

Fréttastofa hefur ekki vitneskju um hvort Páll áfrýi dómnum.

Uppfært 15:30 - Upphaflega var talað um að aðalskipulagsbreytingar væru í farveginum. Rétt er að lýsing á aðalskipulagi er nú í ferli. Frestur til að skila inn athugasemdum rennur út á mánudag. Í kjölfarið verður lögð fram tillaga af hálfu skipulagsnefndar og í sveitastjórnar sem Skipulagsstofnun tekur afstöðu til að lokinni auglýsingu.