Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Snúið að manna sláturtíð vegna faraldursins

16.07.2020 - 12:10
Mynd með færslu
 Mynd: Fjallalamb
Þrátt fyrir aukið atvinnuleysi gengur nú verr að manna sláturtíð en síðustu ár. Forsvarsmenn sláturhúsa segja það býsna snúið að fá erlent fólk til starfa á tímum COVID.

Þurfa að fjölga sláturdögum

Sláturtíð hefst víðast hvar í byrjun september og eru sláturhús þegar farin að auglýsa eftir starfsfólki. Síðustu ár hefur þorri starfsmanna komið frá útlöndum og því setur faraldurinn strik í reikninginn. Hjá Sláturfélagi Suðurlands þarf til að mynda að lengja tímabilið þar sem stór hópur atvinnuslátarar frá Nýja-Sjálandi sem unnið hefur hjá félaginu síðustu ár kemst ekki til landsins. Steinþór Skúlason, forstjóri SS, segir að það gangi illa að fá Íslendinga til starfa. 

Fáar umsóknir frá starfsfólki PCC á Húsavík

Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdarstjóri Norðlenska, tekur í sama streng en þar vantar enn 35 starfsmenn í slátrun á Húsavík. Þar á bæ vonuðust menn eftir því að starfsfólk sem sagt var upp í kísilverinu á Bakka myndi sækja um. Ágúst segir að af þeim níu umsóknum sem borist hafa þaðan hafi allir fengið vinnu. Um 80 manns misstu vinnuna hjá PCC á Bakka.

Erfitt að fá Íslendinga í sláturtíð

Hjá Fjallalambi á Kópaskeri vantar enn 20 starfsmenn. Björn Víkingur Björnsson er framkvæmdarstjóri Fjallalambs.

„Það gengur mun hægar heldur en fyrri ár út af þessu Covid dæmi. Það sem ég er að reyna að gera núna eins og maður getur er að fá íslenskt fólk eða fólk sem er búsett á Íslandi,” segir Björn.

Hvernig hefur það gengið?

„Það gengur bara ekki nógu vel sko. Ég er svolítið hissa. Það er svolítið atvinnuleysi á landinu. Þetta er að vísu ekki langur tími, þetta eru sex vikur en það er sama.”