Sexmenningar af Norrænu í einangrun í vinnubúðum

Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Norræna lagðist að bryggju á Seyðisfirði í morgun með 730 farþega um borð. Einn um borð hafði greinst smitaður af COVID-19 við sýnatöku í Hirtshals í Danmörku síðastliðinn þriðjudag.

Enn er óvíst hvort um hafi verið að ræða virkt eða óvirkt smit. Hann ferðaðist ásamt fimm félögum sínum sem allir reyndust neikvæðir við sýnatökuna. Sexmenningarnir komu til landsins til að starfa á hálendinu og þangað keyrðu þeir úr Norrænu. Þeir munu dvelja í einangrun í vinnubúðum þar til niðurstöður frekari sýnatöku liggja fyrir. 

Samkvæmt heimildum frá Kristjáni Ólafi Guðnasyni yfirlögregluþjóni voru sexmenningarnir í einangrun um borð og starfsmenn Heilbrigðisstofnunar Austurlands (HSA) tóku á móti þeim við komuna til landsins. Þeir fengu leiðbeiningar um það hvernig þeir ættu að haga sér á meðan sýnin eru rannsökuð frekar. Ekki er talin hætta á að sá smitaði hafi smitað aðra farþega um borð. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi