Segja Rússa hafa reynt að stela gögnum um bóluefni

epa08522191 A person holds a new vaccine during the commencement of coronavirus vaccine trials at the Royal Adelaide Hospital in Adelaide, Australia, 02 July 2020. The first potential coronavirus vaccine developed in the southern hemisphere is set to begin human trials in Adelaide.  EPA-EFE/DAVID MARIUZ AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - AAP
Bretar saka rússneska tölvuþrjóta um að hafa reynt að komast yfir upplýsingar frá vestrænum rannsóknarstofum um þróun bóluefnis gegn kórónuveirunni. Stjórnvöld í Kreml segjast ekkert kannast við málið.

Breska netöryggisstofnunin NCSC tilkynnti í dag að hópur tölvuglæpamanna sem nær örugglega starfaði í Rússlandi, eins og það var orðað, hefði reynt að stela gögnum um þróun bóluefnis gegn veirunni frá stofnunum, fyrirtækjum og samtökum í Bretlandi, Kanada og Bandaríkjunum. Að sögn breskra fjölmiðla nefnist hópurinn APT29. Hann er betur þekktur sem Cozy Bear og er sagður vera í nánum tengslum við stjórnvöld í Rússlandi.

Ekki liggur fyrir hvort tölvuþrjótunum hafi tekist að komast yfir einhver rannsóknargögn. Við rannsókn á atferli þeirra naut breska stofnunin aðstoðar frá yfirvöldum í Bandaríkjunum og Kanada.

Tass fréttastofan rússneska hafði síðdegis eftir Dmitry Peskov, talsmanni stjórnvalda í Kreml, að engar upplýsingar lægju fyrir um að glæpamenn hefðu hakkað sig inn í tölvukerfi breskra rannsóknarstofa eða lyfjafyrirtækja.

Talsmaðurinn bætti við að ásakanir um að rússnesk stjórnvöld hefðu haft áhrif á úrslit þingkosninganna í Bretlandi í desember í fyrra væru tilhæfulausar með öllu.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi