Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sautján farþegavélar lenda í Keflavík í dag

16.07.2020 - 06:48
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Sautján farþegaflugvélar lenda á Keflavíkurflugvelli í dag, samkvæmt upplýsingum á vef Isavia. Tíu þeirra koma frá löndum sem eru á lista yfir þau lönd sem ekki eru flokkuð sem áhættusvæði vegna COVID-19.

Í dag bætast Danmörk, Noregur, Finnland og Þýskaland á listann með Færeyjum og Grænlandi. Farþegar sem koma frá þeim löndum þurfa því hvorki að gangast undir skimun né sóttkví við komuna til landsins. Krafa er gerð um að farþegar hafi ekki ferðast til áhættusvæða á síðustu fjórtán dögum.

Íslendingar sem ferðast frá þessum löndum eru líka undanþegnir kröfum um skimun og sóttkví en eru þó hvattir til að sýna varúð fyrstu fjórtán dagana eftir heimkomu, huga að smitvörnum og forðast nálægð við viðkvæma einstaklinga. 

Útbreiðslan minnst á Norðurlöndunum utan Svíþjóðar og í Þýskalandi

Í tilkynningu frá Landlæknisembættinu er haft eftir Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni: „Þegar þróun COVID-19 faraldursins er skoðuð sl. 14 daga skv. upplýsingum Sóttvarnastofnunar Evrópusambandsins (ECDC) kemur í ljós að útbreiðsla faraldursins er hvað minnst á Norðurlöndunum utan Svíþjóðar og í Þýskalandi. Þessu til viðbótar höfum við vitað að erlendir ferðamenn séu almennt ólíklegir til þess að smita út frá sér. Að þessu tvennu samanteknu, og með hliðsjón af reynslu okkar af sýnatökunni frá 15. júní, er eðlilegt að falla frá þessum stífu kröfum á ferðamenn frá þessum löndum.“

Þar er einnig minnt á að fólk með íslenskt ríkisfang og íbúar á Íslandi sem koma frá áhættusvæðum þurfi að fara í skimun á landamærum, viðhafa heimkomusmitgát og fara svo í aðra sýnatöku fjórum til sex dögum eftir heimkomu. Þeir sem fæddir séu árið 2005 og síðar séu undanþegnir kröfunum.