Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rafmagn með vind- og sólarorku í Grímsey

16.07.2020 - 13:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Ef hugmyndir starfshóps um orkuskipti í Grímsey ganga eftir verður allt rafmagn þar framleitt með vind- og sólarorku. Nú fá Grímseyingar rafmagn til lýsingar og húshitunar frá dísilrafstöð.

Lengi hafa verið ræddar leiðir til að framleiða rafmagn með umhverfisvænum hætti í Grímsey og hætta þar með að brenna olíu. Nú liggur fyrir áætlun um að setja upp sólarsellur til að framleiða rafmagn inn á endurunna rafbílarafhlöðu og nota lífdísil í rafstöðinni. Lokatakmarkið er svo stór vindmylla sem gæti framleitt mestallt rafmagn fyrir eyjuna.

Framkvæmdir hefjast á þessu ári

Sigurður Ingi Friðleifsson, framkvæmdastjóri Orkusetus, segir að á þessu ári verði farið í sólarsellu-, rafhlöðu- og lífdísilhlutann. „Vindmylluhlutinn er stærri og flóknari, en vonandi kemst það samt á sem fyrst,“ segir hann.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Dísilrafstöðin þar sem allt rafmagn í Grímsey verður til

Ekki stefnan að brenna jarðefnaeldsneyti

Umhverfismarkmið Akureyrarbæjar miðast heldur ekki við að brenna jarðefnaeldsneyti til að framleiða rafmagn að sögn Guðmundar Hauks Sigurðarsonar, framkvæmdastjóra Vistorku. „Við náttúrulega horfum á þessi markmið okkar í kolefnishlutleysi og umhverfisvænni grænni framleiðslu á orku.“ Þá mætti nýta þann tæknibúnað sem þarna verður á einum stað í fræðslu, til dæmis í Verkmenntaskólanum og Háskólanum á Akureyri.

Segir Grímseyinga áhugasama um verkefnið

Þetta verkefni var kynnt fyrir íbúum Grímseyjar á íbúafundi fyrr í mánuðinum og þeir virðast áhugasamir. „Ég held að þeir séu bara almennt jákvæðir fyrir því, ef það er hægt er að breyta yfir í einhverja vistvænni orku,“ segir Jóhannes Henningsson, formaður hverfisráðs Grímseyjar. Og samfélagið þar henti vel í svona verkefni. „Þetta er af þeirri stærðargráðu að þetta er mjög viðráðanlegt og verður bara gaman að ná að koma þessu áfram.“

Fjárhagslegur sparnaður að hætta að brenna olíu 

Þótt umhverfissjónarmið vegi þarna þungt segir Sigurður hagkvæmnina líka skipta máli. Raforkuframleiðsla með dísil sé dýrasta raforkuframleiðsla sem þekkist. „Þannig að það verður heildarsparnaður af verkefninu líka. Verkefnið mun borga sig, óháð loftslagsmálum. En auðvitað erum við líka að fara í þetta af umhverfisástæðum.“