Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Öskraði og veinaði þegar hún sá nafn sitt birt

16.07.2020 - 20:29
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / Grímur Jón Sigurðsson
Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir, knattspyrnukona í Breiðabliki, segir að sér hafi brugðið þegar hún komst að því að hún hafi smitast af COVID-19 í Bandaríkjunum og liðið ömurlega þegar í ljós kom hve margir þurftu að fara í sóttkví. Hún segir erfitt að lýsa tilfinningunni þegar hún sá nafn sitt í fjölmiðlum skömmu eftir að hafa sjálf fengið fregnirnar. Nafn- og myndbirtingin hefur verið kærð til Persónuverndar.

Var grátandi á gólfinu því „hún vissi hvað hún hefði gert“

Andrea Rán kom til landsins frá Bandaríkjunum í júní. Hún fór í skimun við komuna til landsins og fékk neikvætt svar úr henni. Hún fékk síðar símhringingu frá herbergisfélaga sínum í Bandaríkjunum sem var smituð af kórónuveirunni og ákvað þá, þrátt fyrir að vera einkennalaus, að fara í skimun öðru sinni. Hún reyndist þá smituð af veirunni. Andrea segir að það hafi verið áfall að fá greininguna því hún hafi ekki búist við jákvæðu svari verandi einkennalaus.

„Ég vissi að ég væri búin að vera í kringum mikið í fólki. Það fyrsta sem fer í gang er að ég verð að hringja í alla sem ég hef verið í kringum og segja þeim að vera heima á meðan smitrakningarteymið er að vinna sína vinnu. Ég hringdi bara í alla mína nánustu strax, eins og pabba minn og svoleiðis, og lét þau vita að vera ekki að fara neitt og vera í kringum neinn því þetta væri staðan. “ 

Andrea hafði í millitíðinni meðal annars spilað tvo leiki í úrvalsdeild kvenna og farið í útskriftarveislur. Hún áttaði sig því fljótt á að smitið hefði víðtæk áhrif. Hún segir erfitt að lýsa því hvernig sér hafi liðið á þessari stundu. 

„Ég ligg gjörsamlega niðurbrotin á gólfinu inni i herberginu mínu grátandi á gólfinu því ég vissi hvað ég hafði gert. Á því augnabliki þá bara horfði ég á sjálfa mig og hugsaði: Hvað ertu búin að gera? Nú ert búin að koma tveimur liðum í sóttkví. Ég veit að það þarf að fresta leikjum. Það var mjög erfitt að fá að heyra það og ef ekki erfiðara að fá að heyra það heldur en að fá jákvætt svar. Ég vissi bara að ég væri að senda svo mikið af fólki í sóttkví og það var bara ömurleg tilfinning.“

Áfall að vera nafngreind í fjölmiðlum

Þegar hún hafði rétt svo jafnað sig á fregnunum var henni bent á að hún hefði verið nafngreind í fjölmiðlum þar sem fjallað var um smitið. 

„Mamma er farin upp aftur þannig að ég er ein og ég gríp upp símann minn og sé að ég er með skilaboð frá góðri vinkonu minni. Ég opna þau og þá stendur„Bíddu ert þú með Covid?“ og mynd af mér og þessi frétt á Fótbolta.net. Ég einhvern veginn missi gjörsamlega andann af því þarna er bara fullt nafn. Ég hef aldrei gert þetta áður en ég bara byrjaði að öskra og veina og tilfinningar fóru bara af stað sem ég hef aldrei áður fundið í  lífi mínu.“ 

Móðir hennar heyrði hvað gekk á og hljóp þá strax niður til Andreu en gat ekki hughreyst hana og faðmað. Andrea segist hafa átt erfitt með að stjórna tilfinningunum.

„Það er einhvern veginn eins og heimurinn hafi stoppað en á sama tíma var öllu hvolft yfir mig. Ég náði ekki að halda utan um neitt og ekkert var í mínum höndum lengur.“

Hún hafi ekki einungis þurft að kljást við fregnirnar af jákvæðu smit sem gerði það að verkum að margir þurftu að fara í sóttkví heldur hafi hún einnig þurft að horfast í augu við það að alþjóð vissi nú að hún væri sú smitaða. Áhuginn á fréttunum var mikill því smit Andreu leiddi til fyrstu innanlands smita í lengri tíma. 

Kært til Persónuverndar og Blaðamannafélagsins

Fjölskyldan hefur kært Fótbolta.net, sem fyrst birti mynd og nafn Andreu, til Persónuverndar og Blaðamannafélagsins. Þar er málið nú í ferli. Andrea segir að það hafi verið henni og fjölskyldu hennar erfitt að kljást við umfjöllunina, sérstaklega í ljósi þess hún var innilokuð í einangrun. Hún segir að jákvæð og falleg skilaboð hafi hjálpað sér í gegnum þessa reynslu. 

„Ef það væri ekki fyrir annað fólk og stuðninginn sem ég fékk þá væri ég örugglega ennþá að kenna sjálfri mér um þetta og það er ótrúlegt hvað fólk var jákvætt í minn garð og hjálpaði mér mikið. Ég fékk ótrúlega mikið af fallegum skilaboðum frá fólki sem sagði mér að þetta væri ekki mér að kenna. Ég er bara svo óendanlega þakklát. “

Viðtalið við Andreu Rán má sjá í heild sinni í spilaranum að ofan.