Nýjar miltisbrandsgrafir finnast um allt land

16.07.2020 - 10:30
Mynd með færslu
Myndin er tekin á Seltjarnarnesi þar sem 10 hross drápust úr miltisbrandi 1870 Mynd: Sigurður Sigurðarson
Stöðugt bætast við staðir þar sem finna má grafir dýra sem drepist hafa úr miltisbrandi. Sigurður Sigurðarson, dýralæknir á Selfossi og kona hans Ólöf Erla Halldórsdóttir hafa ferðast um landið til að skrá og rannsaka staðina. Samtals hafa fundist hafa 160 grafir á 130 stöðum.

Skilar skýrslu til Matvælastofnunar

Sigurður og Ólöf verða á ferð í Dalasýslu á laugardaginn kemur og fara eftir það um Norðausturland og Austurland.  Sigurður byrjaði að merkja miltisbrandsgrafir fyrir 16 árum. Hann skilar af sér verkinu til Matvælastofnunar á næstunni sem tekur við eftirliti með stöðunum  

„Ég er að fá upplýsingar um staði sem mér hefur ekki verið kunnugt um og menn eru að hafa samband við mig senda mér tölvupóst eða hringja jafnvel eða láta mig vita. Ég óska þess eindregið að menn hjálpi mér við þetta.“

Hvítir stólpar eru settir á grafirnar. Þeir eru 50 sentimetra háir og á þeim er bókstafurinn A sem stendur fyrir anthrax sem þýðir miltisbrandur. Miltisbrandur er mjög hættulegur og lifir endalaust í jörðinni. Dæmi eru um að hann hafi tekið sig upp aftur eftir að hafa verið meir en 200 ár í jörðinni.

Miltisbrandur tók sig upp eftir 130 ár

Sigurður segir að síðast hafi komið upp miltisbrandur hér á landi á Sjónarhóli á Vatnsleysuströnd árið 2004. Sá miltisbrandur hafði verið grafinn í jörðu í 130 ár eða síðan 1874. Þá drapst skepna úr miltisbrandi sem var strax grafin í sjávarkamb. 

„En svo brýtur sjórinn niður sjávarkambinn og dreifir efninu um beitiland hrossa sem þar voru. Og eftir stuttan tíma fara hrossin að deyja úr þessum sjúkdómi.“

Menn og dýr hafa rifið upp merkingar

Sigurður segir að mjög mikilvægt sé að merkja staðina þar sem grafirnar eru. Því miður séu dæmi um að bæði menn og Dæmi eru um að dýr og menn rífi merkin upp.
 
„Ég bið fólk um að virða þetta því þetta er mikilvægt að hafa þessar ábendingar um hættuna smithættuna sem fólki getur stafað af þessu og skepnum.“

Fólk þarf ekki að forðast merkin því sólin eyðir smitinu á yfirborðinu. „En eftir að sýklarnir komast ofan í jörðina eða gróin þá lifir þetta endalaust. Maður veit ekki hvað þetta lifir lengi.“

Rætt var við Sigurð í Bændablaðinu.

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi