„Markmiðið er að hafa mjög gaman“

Mynd: EPA / EPA

„Markmiðið er að hafa mjög gaman“

16.07.2020 - 19:30
Íslandsmeistaramótið í sundi í 50 metra laug fer fram í Laugardalslaug um helgina, þremur mánuðum á eftir áætlun vegna kórónuveirufaraldursins. Eini Íslendingurinn með Ólympíulágmark, Anton Sveinn McKee, segir frestunina þó hafa nýst vel.

Íslandsmótið er alla jafna haldið í apríl en var frestað í ár. Venjulega væri flest afreksfólk Íslands í sundi í sumarfríi á þessum tíma eða að búa sig undir brottför á Ólympíuleika en öll plön eru breytt þetta sumarið sem þarf þó ekki að vera neikvætt.

„Já hvað væru, átta dagar í leika, við værum örugglega báðir þar. Sem betur fer þá er maður búinn að gera vel úr þessu. Það er mjög svekkjandi að fá ekki að vera í góðu standi og spenntur fyrir leikunum en að sama skapi þá er maður búinn að ná að æfa mjög vel undanfarna mánuði og vikur og sem betur fer mun maður bara kom með betri grunn inn í leikana að ári,“  segir Anton Sveinn.

Íslandsmótið hefst í Laugardalslaug á morgun klukkan 18. Allir sterkustu keppendur landsins verða með auk sterkra erlendra sundmanna. Má þar helst telja þau Miu Nielsen og Viktor Bromer frá Danmörku, en bæði státa af aragrúa verðlauna af Ólympíuleikum og heims- og Evrópumótum í sundi.

„Tveir sterkir frá Danmörku eru komnir til okkar, Ólympíufarar bæði og annar Tyrki sem er búinn að keppa á mörgum heimsmeistaramótum þannig sem betur fer eru komnir góðir keppnismenn og margir Íslendingar sem eru í toppstandi þannig að vonandi koma einhver Íslandsmet, ég ætla ekki að lofa miklu með sjálfan mig en ég er allavega mjög spenntur fyrir því að fá að keppa og vera með vinum mínum og markmiðið er að hafa mjög gaman,“ segir Anton og tekur undir að allir ættu að geta notið sín vel um helgina.

Viðtalið við Anton má sjá í spilaranum hér að ofan.

 

Tengdar fréttir

Sund

Anton Sveinn: Hægt að koma út úr þessu á góðum stað

Sund

Anton Sveinn gerist atvinnumaður

Sund

Anton Sveinn lauk keppni með sjöunda Íslandsmetinu