Landspítali tekur yfir sýnarannsóknir á mánudag

Mynd: Lögreglan / Lögreglan
Sóttvarnarlæknir er bjartsýnn á að sýkla- og veirufræðideild Landspítalans geti á mánudag tekið við rannsóknum á þeim sýnum sem tekin eru úr ferðamönnum við komuna til landsins.

Forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar tilkynnti í síðustu viku að fyrirtækið myndi á mánudag hætta að rannsaka sýni sem tekin eru á landamærum. Sýkla- og veirufræðideild Landspítalans var ekki reiðubúin til að taka verkefnið alfarið yfir þá og fékk vikufrest. Áfram er gert ráð fyrir að taka og rannsaka rúmlega tvö þúsund sýni á sólarhring. 

Ertu bjartsýnn á að sýkla- og veirufræðideildin geti tekið við þessu verkefni að fara yfir sýnin, á mánudag?

„Já, ég er ágætlega bjartsýnn á það og hef það eftir þeim sjálfum að þó að það sé knappur tími og þau hafi virkilega þurft að vinna hörðum höndum að því að þá er mér sagt að það muni ganga,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir.

Rætt hefur verið um að auka megi afkastagetuna með því að rannsaka fimm sýni í einu. En hvernig hafa slíkar prófanir komið út?

„Ég held að það hafi ekki reynt sérstaklega á það. Þau eru bara að þjálfa og þróa þessa aðferðafræði. Þessi aðferð krefst meiri handavinnu, meiri mannskaps til að framkvæma. Ég held að það klárlega í byrjun taka einhvern tíma að ná færni í því er mér sagt. En ég held að það sé eins og annað þegar menn þjálfast þá eigi það að geta gengið betur. En þau telja alla vega að það eigi að geta gengið vel,“ segir Þórólfur.
 

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi