Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Kvika vill eignast Netgíró

16.07.2020 - 14:22
Mynd með færslu
 Mynd: Kvika
Kvika hefur undirritað viljayfirlýsingu um kaup á 80 prósenta hlut í Netgíró. Bankinn á nú þegar 20 prósent í félaginu og verður því eini eigandinn ef af kaupunum verður.

Í tilkynningu Kviku til Kauphallarinnar er haft eftir Marinó Erni Tryggvasyni, forstjóra Kviku, að bankinn sjái tækifæri í Netgíró, enda hafi félagið mikla markaðshlutdeild og öfluga starfsmenn.

Þá kemur fram að kaupin séu „í samræmi við stefnu bankans að nýta tæknilausnir til þess að nútímavæða fjármálaþjónustu“. Bankinn hafi átt gott samstarf við Netgíró síðustu ár og að með kaupunum vilji Kvika efla enn frekar samstarfið og auka þannig skilvirkni og hagræðingu beggja félaga. 

Stefnt er að því að ganga frá kaupsamningi innan þriggja mánaða. Þó eru ýmsir fyrirvarar settir við viljayfirlýsinguna, til dæmis liggur ekki enn fyrir samþykki stjórnar Kviku. Þá er beðið eftir niðurstöðu úr áreiðanleikakönnun og samþykki eftirlitsaðila.

Netgíró gleðst yfir viljayfirlýsingunni

Í yfirlýsingunni er svo haft eftir Snorra Rafni Rafnssyni, stjórnarformanni Alva Holding ehf. sem er móðurfyrirtæki Netgíró: „Viljayfirlýsingin er mikið gleðiefni og um leið staðfesting á því sem við hjá Netgíró höfum unnið að frá stofnun félagsins. Afburða starfsfólk, skýr framtíðarsýn og mikil vinna hefur skapað fyrirtækinu þann sess sem það nú skipar. Við vitum að framundan eru spennandi tímar og mikil tækifæri til vaxtar.“

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV