
Kúrðu sig spakar í göngunum
„Þær voru þétt upp við gangavegginn,“ segir Björk sem birti mynd af kindunum í göngunum á facebook-síðu sinni fyrr í kvöld. Margir sem þekkja til atferlis kinda hafa skrifað athugasemdir við myndina og segja að algengt sé að þær hafi vit á að forða sér undan óveðri.
Björk segir að féð hafi verið hið spakasta. Nokkrar kindur hafi þó ókyrrst nokkuð þegar hún ók framhjá þeim á leið til Súgandafjarðar, en þegar hún ók til baka nokkru síðar hafi engin þeirra kippt sér upp við það. „Þá hafa þær verið þarna í einhvern tíma og búnar að venjast því að fá bílana svona nálægt sér,“ segir Björk.
Appelsínugul viðvörun er nú í gildi á Vestfjörðum, en þar er allhvasst, 15-20 metrar á sekúndu og varað er við vatnavöxtum í ám og hættu á skriðum og grjóthruni. Þá er hætta á foki á lausamunum.