Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Keflavíkurflugvöllur er að vakna til lífsins

Keflavíkurflugvöllur er smám saman að vakna til lífsins eftir því sem fleiri lönd slaka á ferðatakmörkunum. Komur í dag voru 17 og brottfarir 18 en til samanburðar voru komur og brottfarir átta um miðjan júní. Sigþór Kristinn Skúlason forstjóri Airport Associates segist vonast til að einhver þeirra félaga sem hætt eru að fljúga til landsins hefji flug hingað aftur. Hann segir að gerður hafi verið samningur við Play-Air og vonir standi til að félagið hefji flug sem fyrst.

Þrettán flugfélög fljúga til og frá landinu um þessar mundir og í næstu viku fara þau 118 flugferðir frá Keflavík, til 30 borga í 18 löndum. Icelandair fer helming þessara ferða sem langflestar eru til meginlands Evrópu og Kaupmannahafnar. WizzAir er einnig umsvifamikið og fer 23 ferðir frá Íslandi. Önnur flugfélög láta sér duga einn til tvo áfangastaði. 

Hugsanlegt er að fleiri áfangastaðir bætist við í ágúst því Icelandair hefur boðað flug til Glasgow, Genfar, Dyflinnar, Helsinki, New York og Toronto í ágúst og önnur flugfélög gætu bæst við. 

Flestar sérvöruverslanir nú opnar

Rúmlega þriðjungur flugferða er frá öruggum löndum, það er Færeyjum, Grænlandi, Þýskalandi, Danmörku og Noregi. Finnland er einnig á lista yfir örugg lönd en sem stendur er ekkert beint flug á milli Íslands og Finnlands. 

Á tímabili var Fríhafnarverslunin eina verslunin sem var opin á flugvellinum en nú er starfsemin smám saman að færast í eðlilegt horf og búið er að opna flestar sérvöruverslanir að nýju. Mathúsið er opið og aðrir veitingastaðir verða opnaðir á næstunni. 

Þetta er þó aðeins svipur hjá sjón frá því sem var í fyrra, en þá flugu 27 flugfélög til 69 borga í 27 löndum. Umsvifin eru því um helmingi minni en í fyrra. 

Rekinn á 5% afköstum

Keflavíkurflugvöllur ræður við um 26 lendingar á klukkustund og 40 þúsund farþega á dag. Afkastageta skimunar og greiningargeta heilbrigðisyfirvalda er hins vegar einungis tvær vélar á klukkustund og tvö þúsund sýni á dag. Flugvöllurinn er því sem stendur rekinn á um 5% afköstum. 

„Sem betur fer er þetta aðeins að glæðast,“ segir Sigþór Kristinn Skúlason forstjóri Airport Associates. Hann segir að búast megi við að starfsemin verði í hægagangi þar til ferðamenn frá Bandaríkjunum fari að koma hingað að nýju. „Við söknum þess að vera ekki með Delta Airlines, American Airlines og Air Canada, til að mynda. Það munar um minna.“

Áforma endurráðningar

Sigþór segir að stjórnendur Airport Associates áformi nú endurráðningar eftir að hafa sagt stórum hluta starfsmanna sinna upp í vor. „Við erum að vinna þá vinnu núna. Hann segir að verið sé að ræða við þau flugfélög, sem hafa flogið hingað til lands, um að fljúga hingað að nýju. „Við vonumst til að fleiri bætist við,“ segir Sigþór.

Spurður hvort Airport Associates bindi vonir við Play-Air svarar Sigþór: „Klárlega. Við erum búin að gera samning við Play og vonumst til þess að Play byrji sem fyrst.“