Icelandair hefur dregið til baka 114 uppsagnir flugmanna af þeim 421 sem sagt var upp í apríl. Alls munu því 139 flugmenn starfa hjá Icelandair um mánaðamótin.
Þetta staðfestir Sigrún Össurardóttir hjá samskiptasviði Icelandair. Félag íslenskra atvinnuflugmanna lýsir yfir vonbrigðum með fjölda endurráðninga í bréfi frá Jóni Þór Þorvaldssyni, formanni Félags íslenskra atvinnuflugmanna, til félagsmanna sem Fréttablaðið vitnar í í dag.
Félagið er ósammála forsendum Icelandair fyrir fjölda endurráðninga. Útreikningar hafi sýnt þörf fyrir fleiri flugmenn. Útreikningar um flugmannaþörf eru byggðir á flugáætlun sem áætluð er fyrir ágúst.
„Með vísan til ríkulegs framlags flugmanna á ýmsum sviðum undanfarna mánuði var það von FÍA að útreikningar sem sýndu bæði þörf fyrir fleiri flugmenn og hagræði af því að afturkalla uppsagnir á sama tíma fengju að ráða, en sú varð ekki raunin,“ er haft eftir Jóni Þór í bréfinu.