Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Grípa verði til annarra ráða en að bæta löndum á lista

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Sóttvarnarlæknir segir að ef stefni í að fleiri komi til landsins en unnt sé að komast yfir að skima, verði að grípa til annarra ráða en að fjölga ríkjum sem undanþegin séu skimun. Fulltrúi forsætisráðuneytisins segir enga ákvörðun hafa verið tekna um hvort skimun á landamærum verði haldið áfram eftir mánaðamótin.

Slakað verður á samkomubanni eftir verslunarmannahelgi, verði tillögur sóttvarnarlæknis samþykktar. Fram kom á upplýsingafundi almannavarna að sóttvarnarlæknir hyggst leggja tillögur fyrir heilbrigðisráðherra um þetta. Núna mega að hámarki koma fimm hundruð manns saman í einu en sóttvarnarlæknir leggur til að sú tala verður hækkuð í eitt þúsund manns. Jafnframt leggur hann til að opnunartími vínveitingastaða lengdur en núna er aðeins heimilt að hafa þá opna til klukkan ellefu á kvöldin. 

Í dag fjölgaði þeim löndum þaðan sem fólk er undanþegið skimun á landamærum hér. Alls koma tvö þúsund og þrjú hundruð farþegar til landsins í dag í gegnum Keflavíkurflugvöll. Af þeim átján vélum sem koma hingað eru átta frá löndum sem undanþegin eru skimun. Sóttvarnarlæknir hefur sagt að sýnatökum fækki um allt að fjörutíu og fimm prósent með því að fjölga öruggum löndum. Ekki er viðbúið að skima hafi þurft alla aðra því börn eru undanþegin skimun.

Sóttvarnarlæknir segir ekki ljóst hvenær fjöldi farþega verður meiri en tvö þúsund en það er hámarksafkastageta í skimun. 

„Meðan við getum ekki aukið afkastagetuna í sýnatökunni þá að mínu mati verðum við að miða flæðið af farþegum frá áhættusvæðum við það,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir.

Ljóst er að aukinn áhugi er á Íslandi. Fulltrúi forsætisráðuneytisins telur fjölgun öruggra landa dugi til að halda tölunni undir tvö þúsund á næstunni. 

„Miðað við það sem við sjáum fyrir þá á það alveg að nægja næstu vikurnar,“ segir Páll Þórhallsson, verkefnisstjóri í forsætisráðuneytinu.

Þegar það nægir ekki lengur, hver er þá besta lausnin?

„Það er ekki gott að segja. Auðvitað var þessi skimun tekin upp sem tilraunaverkefni til að byrja með. Núna var ákveðið að halda áfram út júlímánuð. Það er svo sem ekki búið að taka ákvörðun lengra fram í tímann um það hvort nákvæmlega þetta fyrirkomulag verði við lýði,“ segir Páll.

Hann segir ef halda eigi skimun áfram væri hægt að hleypa bara þeim í skimun sem fyrstir eru til að skrá sig. Aðrir færu þá í sóttkví.

„Annað væri að ráðherra myndi bara setja takmörkun á flugumferð til landsins eins og er heimilt í loftferðalögum,“ segir Páll.

Eruð þið að undirbúa einhverjar þannig aðgerðir svo þið séuð tilbúin ef það þarf að grípa til þeirra?

„Ég myndi ekki segja það. Það er verið auðvitað í þessum ráðuneytum sem eiga í hlut að fara yfir regluverkið,“ segir Páll.

Sóttvarnarlæknir telur að halda verði skimun áfram á landamærum.

„Við þurfum sennilega að halda þessu áfram næstu mánuði og ég hef nefnt sex mánuði að minnsta kosti,“ segir Þórólfur.

„Að mínu mati á ekki að fjölga ríkjum á öruggum lista nema það séu málefnalegar ástæður til að gera það þ.e.a.s. út frá sóttvarnarsjónarmiðum. Ef það sýnir sig að við erum að fara yfir þetta mark sem við teljum að við getum höndlað, 2000 manns, þá að mínu mati þarf að grípa til einhverra annarra ráða,“ segir Þórólfur.
 

Fréttinni hefur verið breytt. Því var ranglega haldið fram að samkomubann verði rýmkað í 1000 manns og opnunartími vínveitingastaða verði lengdur. Hið rétta er að sóttvarnarlæknir hyggst leggja þetta til við heilbrigðisráðherra sem tekur ákvörðun um hvort bannið verði rýmkað og þá hvernig.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV