Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Fimm þúsund króna sekt við lausagöngu katta á Húsavík

16.07.2020 - 15:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Misjafnar reglur gilda um lausagöngu katta í þéttbýli hér á landi. Í Norðurþingi hefur lausaganga verið bönnuð í nokkur ár. Umhverfisstjóri sveitarfélagsins segir bannið hafa gefist vel.

Misjafnar reglur um kattahald

Samþykktir sveitarfélaga um kattahald leyfa flestar lausagöngu katta; með ákveðnum skorðum. Eigendum ber víðast hvar að taka tillit til fuglalífs á varptíma með því að setja bjöllur á kettina og takmarka útiveru að næturlagi. Þá bera eigendur ábyrgð á öllu því tjóni sem köttur kann að valda.

Lausganga bönnuð í Norðurþingi

Í Norðurþingi er lausaganga katta þó með öllu óheimil. Smári Lúðvíksson, umhverfisstjóri, segir að flestum kattareigendum gangi ágætlega að fylgja reglunum. 

„Dæmigert ferli er í rauninni það að mér berast í kvartanir, það geta verið í símtali, tölvupósti eða hvar sem er, oft er gott að fá myndir af dýrinu. Þá í rauninni hef ég samband við dýraeftirlistmann hjá sveitarfélaginu sem fer á staðinn og talar við þann sem tilkynnir eða annan til þess að reyna að nálgast dýrið. Það er mjög upp og ofan hvort við virkilega náum dýrinn Oft reynum við að taka mynd af því til þess að geta þá vitnað í það seinna meir og haft þá samband við eigendur og beðið þá um að gera betur,“segir Smári. 

Sekt ef kettir eru handsamaðir

Eigendur katta sem handsamaðir eru í bænum geta átt von á fimm þúsund króna sekt og við ítrekuð brot geti hún hækkað í tíu þúsund.

„Já það eru viðurlög við því að við handsömum dýrið og afhendum dýrið. Ef við handsömum dýr og afhendum eiganda þá munum við senda sekt.“