Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ferðamenn á Hornströndum leituðu skjóls undan veðri

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Á þriðja tug ferðamanna er á Hornströndum, en þar er vonskuveður. Allt er fólkið komið í öruggt skjól, en að auki er talsvert um fólk í sumarhúsum á svæðinu. Jónas Guðmundsson hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg segir að björgunarsveitir á svæðinu séu í viðbragðsstöðu. Mikil rigning er og hætta á skriðuföllum og hefur Veðurstofan gefið út appelsínugula viðvörun á svæðinu.

Þar er allhvasst, 15 til 20 metrar á sekúndu og varað er við vatnavöxtum í ám og hættu á skriðum og grjóthruni. Fólk er hvatt til að huga að niðurföllum til að forðast vatnstjón.

Jónas segir að hætta sé á skriðuföllum og foki á lausamunum. Hann segir að ferðamaður, sem leitað hafi skjóls í neyðarskýli, hafi sent út neyðarkall í dag. Ekki hafi þótt ástæða til að bregðast við því, þar sem hann hafi verið í öruggu skjóli.

Allir í skjóli

Kristín Ósk Jónasdóttir, sérfræðingur og landvörður á Hornströndum segir að á svæðinu sé líklega á þriðja tug ferðamanna, auk fólks sem hafist þar við í sumarhúsum. Margir hafi ákveðið að yfirgefa svæðið í gær, þegar gefin var út gul veðurviðvörun, en veðrið hafi versnað allverulega síðan þá. Hún segir að fólkið hafi ýmist fengið skjól í húsum eða í neyðarskýlum og ekki sé vitað um að neinn sé í vandræðum. Talstöðvar séu í öllum neyðarskýlum.

„Í Hornvík eru líklega 17 manns. Fólkið er þar ýmist í neyðarskýli eða í stóru tjaldi sem er á vegum ferðaþjónustuaðila,“ segir Kristín. „Einn maður er í neyðarskýli í Hlöðuvík, ófært er yfir Hlöðuvíkurós, en hann er með vistir til nokkurra daga og það væsir ekki um hann. Þá vitum við um mann sem var á leiðinni á Austur Strandir, en hann átti húsaskjól í sumarhúsi. Það er einnig nokkuð af fólki í Hornbjargsvita.“

Að sögn Kristínar eru tveir landverðir staddir á svæðinu.