Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Appelsínugul viðvörun á Vestfjörðum

16.07.2020 - 16:49
Mynd með færslu
 Mynd: Veðurstofa Íslands
Veðurstofa Íslands hefur gefið út appelsínugula viðvörun á Vestfjörðum vegna rigningar og hættu á skriðuföllum. Viðvörunin er í gildi þar til á miðnætti annað kvöld. Gul viðvörun er enn í gildi á Norðurlandi og Norðvesturlandi.

Á vef Veðurstofu Íslands segir að spáð sé talsverðri eða mikilli rigningu á Vestfjörðum. Þá er aukið afrennsli og vatnavextir í ám og lækjum. „Vöð geta orðið varhugaverð, jafnvel ófær. Einnig er varað er við hættu á skriðum og grjóthruni. Einnig er aukið álag á fráveitukerfi. Fólk er hvatt til að huga að niðurföllum til að forðast vatnstjón.“

Rigningar sem þessar auka hættu á skriðum. Í morgun féll aurskriða á veginn upp á Bolafjall í grennd við Bolungarvík. Vegurinn verður lokaður næstu daga vegna skriðunnar. Þá var árlegri Hlaupahátíð á Vestfjörðum aflýst vegna veðurs og hættu á grjótskriðum.