Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Andhormónalyf við brjóstakrabbameini aftur ófáanleg

16.07.2020 - 09:42
Mynd með færslu
 Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Nauðsynleg andhormónalyf fyrir konur sem lokið hafa meðferð við brjóstakrabbameini eru ófáanleg á landinu. Aromasin og Exemestan eru bæði á biðlista hjá dreifingarfyrirtækinu Distica.

Frumlyfið Aromasin hefur verið ófáanlegt frá 13. júlí síðastliðnum og ekki er von á því aftur til landsins fyrr en 27. júlí. Samheitalyfið Exemestan hefur verið á biðlista frá 31. mars en er enn fáanlegt hjá Distica þótt mjög styttist í fyrningardagsetningu þeirra pakka sem til eru.

Samkvæmt upplýsingum frá Lyfju eru engir pakkar eftir í þeirra hillum og í samtali við fréttastofu segjast tvær konur hafa fengið þær upplýsingar í apótekum að örfáir pakkar væru eftir af Exemestan, en þeir rynnu út í lok mánaðarins.

Fréttastofa bíður nú svara frá Distica og Lyfjastofnun við fyrirspurnum um ástæður lyfjaskortsins. Samkvæmt reglugerð sem var samþykkt árið 2018 ber hagsmunaaðilum eins og heildsölum að tilkynna yfirvofandi lyfjaskort til Lyfjastofnunar.  

Ekki í fyrsta sinn sem lyfin eru ófáanleg 

„Það er augljóst að það er ekki verið að gera það sem þörf er á til að tryggja stöðugan aðgang að lífsnauðsynlegum lyfjum,“ segir Lára Guðrún Jóhönnudóttir í samtali við fréttastofu. Lára greindist með brjóstakrabbamein árið 2017. Hún var meðal þeirra kvenna sem létu í sér heyra haustið 2018 þegar skortur var á sömu lyfjum og nú og þrátt fyrir að vera í árslangri lyfjapásu hefur hún vakið athygli á vandanum á Facebook. 

Lára segir að þá hafi í tvo daga verið „krítiskur lyfjaskortur“ þegar frumlyfin og samheitalyfin voru bæði ófáanleg. Samheitalyfið Exemestan var ófáanlegt í fjóra mánuði um mitt ár 2018. Hún segir ljóst að nú stefni á ný í krítískan lyfjaskort, ef hann er ekki nú þegar í gildi. 

„Þá hefst væntanlega snapað, sníkt og bíttað“ 

Lára er í Facebook-hóp með konum sem glíma við eða hafa glímt við krabbamein. Þar segir hún að gripið hafi um sig ótti vegna lyfjaskortsins og í færslu skrifar hún: „Þá hefst væntanlega snapað, sníkt og bíttað hjá konum sem eru í andhormónameðferð eftir brjóstakrabbamein.“ Þar vísar hún til þess að þegar lyfin voru ófáanleg hér á landi fyrir tveimur árum hjálpuðust konur að við að tryggja hver annarri lyf meðan þær biðu eftir næstu sendingu. 

Ólíkar aukaverkanir af inntöku lyfjanna tveggja

Lára útskýrir að Aromasin og samheitalyfið Exemestan dragi úr estrógenframleiðslu líkamans og svelti þannig æxlisfrumur af estrógeni sem þær nærast á. Algengt sé að konur taki lyfin í fimm til tíu ár eftir að hafa lokið krabbameinsmeðferð til að minnka líkur á því að krabbameinið taki sig upp aftur. Lyfin valdi í raun tíðahvörfum og í inntöku þeirra felist því mikið inngrip í líf kvenna. Margar hafi þurft að flakka á milli þess að taka frumlyfið og samheitalyfið vegna skorts á öðru hvoru. Slíkt hringl með lyfin komi sér mjög illa, aukaverkanir séu ólíkar og lyfin henti konum misvel.   

Útrunnið lyf eini kosturinn 

Laufey Tinna Guðmundsdóttir er ein þeirra kvenna sem þarf nauðsynlega á lyfinu Exemestan að halda. Í samtali við fréttastofu í gær sagðist hún aðeins eiga tvær töflur eftir. Í fyrradag var henni sagt í apóteki að lyfið væri ófáanlegt. Reyndar væri til pakki sem rynni út í lok mánaðarins, en þar sem lyfið væri selt í þriggja mánaða skömmtum yrði það ekki afgreitt. Laufey segir að sér hafi þá verið bent á að taka Aromasin-lyfið í staðinn, frumlyf sem, að mati læknis, er síðra fyrir hana en Exemesten. „Svo kom á daginn að Aromasin hefði selst upp þann 13. júlí og væri hvergi fáanlegt,“ segir hún.  

„Það er óviðunandi að lyf sem eru fólki lífsnauðsynleg skuli ekki vera til. Enn og aftur, og ekkert samheitalyf fáanlegt. Þetta veldur óöryggi og vanlíðan hjá mér og öðrum konum í þessari stöðu.“ Laufey segir að henni hafi litist nógu illa á að þurfa að taka annað lyf en hún er vön. En hana hafi varla órað fyrir því að til þess kæmi að hvorugt lyfjanna væri í boði.  

„Óraunverulegt að vera í þessari stöðu“

Hafdís Priscilla Magnúsdóttir hefur sömu sögu að segja. Hún var farin að undirbúa sig undir að taka frumlyfið Aromasin í stað þess að taka samheitalyfið Exemestan eins og hún hefur gert í rúmt ár, eftir að hafa fengið þær fregnir að pakkarnir sem til væru rynnu út í lok mánaðarins. „Ég vil að lyfið virki 100 prósent og ég vil ekki taka áhættuna sem gæti fylgt því að taka útrunnið lyf, sem er það eina sem virðist vera í boði. Þess vegna hafði ég sætt mig við að prófa frumlyfið. En nú er það líka ófáanlegt,“ segir Hafdís sem segir lyfjaskortinn valda mikilli hræðslu og kvíða.  

„Það er óásættanlegt að tugir kvenna þurfi ítrekað að sætta sig við þetta. Það er óraunverulegt að vera í þessari stöðu,“ segir Hafdís.