Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Ætla að halda sínu striki þrátt fyrir veður og COVID

16.07.2020 - 10:08
Mynd með færslu
 Mynd: Laugavegur Ultra marathon
Hlaupaviðburðurinn Laugavegur Ultra marathon fer fram á laugardag að öllu óbreyttu. Gul viðvörun var í gildi á miðhálendinu til níu í morgun og áfram er spáð hvassviðri á sunnan- og vestanverðu hálendinu. Silja Úlfarsdóttir, upplýsinga- og samskiptastjóri Íþróttabandalags Reykjavíkur, segir að vel sé fylgst með veðurspá fyrir laugardaginn.

„Við erum með allar ráðstafanir klárar og hlaupararnir eru undirbúnir fyrir hvað sem er,“ segir hún. Aðspurð hvort veðrinu sem stendur yfir núna komi til með að fylgja snjókoma segist hún hafa heyrt að svo verði líklegast ekki. Laugavegshlaupið er 55 kílómetra utanvegahlaup. Hlaupið hefst í Landmannalaugumog lýkur í Þórsmörk. 550 manns eru skráðir í hlaupið að þessu sinni. 

Erlendir þátttakendur fara í sérstaka rútu

Færri erlendir hlauparar taka þátt í hlaupinu í ár vegna faraldursins. Vanalega eru þeir um helmingur þátttakenda en nú eru þeir aðeins 8 prósent. Silja segir að erlendir þátttakendur sem komu til landsins eftir 12. júlí muni fara í sér rútu til Landmannalauga þar sem hlaupið hefst. Þeir sem komu að utan til þess að taka þátt í hlaupinu þurfa jafnframt að sýna fram á að niðurstöður sýnatöku hafi verið neikvæðar til þess að vera heimiluð þátttaka. 

Silja segir að þessar ráðstafanir hafi verið gerðar í samráði við landlækni. Líkt og fyrri ár verður hlaupið í fjórum hollum. Lengra verður á milli ræsingar hvers hóps en vanalega og er það gert vegna sóttvarnarráðstafana. Hún segir að öllum þátttakendum verði boðnar sóttvarnargrímur. 

Ekki von á neinum gestum á Hveravöllum

Að sögn skálavarðar á Hveravöllum er veðrið ekki orðið sérlega slæmt. Mikil úrkoma hefur hins vegar verið á svæðinu. Veðurathugunarstöð er á Hveravöllum og samkvæmt skálaverði á að bæta í vind í nótt og í fyrramálið. Einhverjir hafa breytt ferðaáætlunum sínum og eins og er er ekki von á neinum göngu- eða hestamönnum í dag og á morgun. 

Samkvæmt upplýsingum frá Básum í Þórsmörk er vindur og svartaþoka á Fimmvörðuhálsi, þrátt fyrir að ágætis logn sé í Þórsmörk. Ekki er mælt með því að farið sé af stað í göngu á Hálsinn í dag en horfurnar eru þó fínar frá föstudegi til sunnudags. 

Mynd með færslu
Svartaþoka er á Fimmvörðuhálsi.
Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV