Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Vilja að hundaeftirlitið sinni hundum

Hundaeigendur á höfuðborgarsvæðinu hafa greitt yfir milljarð í hundaleyfisgjöld frá árinu 2007. Þetta segir Freyja Kristinsdóttir, formaður Félags ábyrgra hundaeigenda. Félagið sendi kvörtun til umboðsmanns borgarbúa þar sem þess er krafist að fénu verði eingöngu varið í hundahald en ekki önnur verkefni borgarinnar.

Í kvörtuninni sem send var í fyrradag er gagnrýnt að hundaeftirlit í borginni sé ekki nægilega virkt og að starfsmenn þess sinni ýmsum öðrum störfum eins og að eltast við hænur. Gerð er athugasemd við að þriðjungur af launum framkvæmdastjóra heilbrigðiseftirlits Reykjavíkurborgar sé greiddur af hundaeigendum, en það sé í engu samræmi við þá áherslu sem borgin leggi á málaflokkinn.

„Heilbrigðiseftirlitið er stórt batterí og hundaeftirlitið er bara brotabrot af því þannig að 30% af launum framkvæmdastjóra er vel í lagt,“ segir Freyja.  „Í rauninni höfum við horft á þau verkefni sem hundaeftirlitið og hundaeftirlitsmenn eru að sinna. Þeim hefur fækkað alveg svakalega síðastliðin ár. Hundaeftirlitsmenn eru að eltast við einn lausan hund að meðaltali á viku.“

Það hljóta fleiri en einn hundur að sleppa í hverri viku. Hver nær öllum hinum hundunum? „Það er í rauninni samfélagið, Hundasamfélagið á Facebook,“ segir Freyja. 

Hún segir að hundaeigendur hafi margoft vakið athygli á þessu fyrirkomulagi, en með því að kvarta formlega sé vonast til að breytingar verði á. „Við teljum í raun ekki þörf á þessu hundaeftirliti, allavegana ekki í þeirri mynd sem það er í dag. Ég veit að Reykjavíkurborg er að vinna í því að breyta þessu og koma upp dýraeftirliti. En eins og þetta er í dag er þetta alls ekki nógu gott,“ segir Freyja.