Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Veðurviðvörun – ferðalangar fresta göngum eða snúa við

15.07.2020 - 12:11
Mynd með færslu
 Mynd: Veður.is
Gul viðvörun verður í gildi á miðhálendinu seinna í dag og í kvöld. Seinni partinn á morgun verður svo í gildi viðvörun á Ströndum, Norðurlandi vestra, Vestfjörðum og á Breiðafirði.

Veðurstofan varar við djúpri lægð sem hreyfist norðaustur yfir landið á morgun og hinn, og hvetur ferðalanga og útivistarfólk til að kynna sér vel veðurspár. Nú þegar hafa göngugarpar á Laugaveginum afbókað ferðir eða snúið við. 

Ferðalangar snúa við

„Hér enn blankalogn,“ segir Máni Gautason, skálavörður í skála Ferðafélags Íslands við Hrafntinnusker. „En það er svartaþoka, og sumar stikur sjást ekki á Laugavegi fyrir snjósköflum.“ Máni segir marga nú þegar hafa snúið við að Landmannalaugum.

Hann segir að minnsta kosti tvo kílómetra milli Stórakvers og Hrafntinnuskers snævi þakta og skyggnið slæmt. Aukapláss verði í skálanum næstu daga ef ferðalangar skyldu óvænt þurfa að leita þar skjóls. „Þó er ekki endalaust pláss ef allt fer úr böndunum,“ segir hann.

Hvetja fólk til að tvöfalda dagleiðir

Máni segir fólk hafa breytt göngudagskránni og skálaverði hvatt fólk til að tvöfalda dagleiðir fyrstu dagana til að komast hraðar yfir. Þó eigi hann von á tuttugu og eins manns hópi frá Útivist og að minnsta kosti tveimur ferðalöngum í viðbót. Skálasvæði Ferðafélags Íslands á Laugaveginum eru sex talsins: Landmannalaugar, Hraftinnusker, Álftavatn, Botnar á Emstrum, Langidalur og Húsadalur í Þórsmörk. 

Mynd með færslu
 Mynd: Veður.is
Veðrið á miðnætti í kvöld.
hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV