Ungfrú Ragnheiður komin á nýjan bíl

15.07.2020 - 22:05
Mynd: Bjarni Rúnarsson / RÚV
Ungfrú Ragnheiður, skaðaminnkandi úrræði fyrir þá sem nota vímuefni í æð á Akureyri, tók nýverið nýjan bíl í notkun og fjölgaði vöktum. Hópstjórar segja tilkomu bílsins breyta miklu, og að aðsókn hafi aukist síðan verkefnið hófst.

Tveir hjúkrunarfræðingar á Akureyri hrundu verkefninu í framkvæmd í byrjun árs 2018 á vegum Rauða krossins. Verkefnið er sambærilegt við Frú Ragnheiði sem haldið er úti í Reykjavík og felur í skaðaminnkun fyrir þá sem nota vímuefni í æð. Hjúkrunarfræðingar sinna grunnheilbrigðisþjónustu og útvega hreinan og ókeypis búnað til fólks sem sprautar sig til að draga úr líkum á smitsjúkdómum og sýkingum og taka á móti notuðum búnaði til förgunar. Verkefninu sinna þær í sjálfboðavinnu. Um 15 til 20 sjálfboðaliðar Rauða krossins sinna vöktum hjá Ungrfú Ragnheiði. 

„Þetta fór hægt af stað hjá okkur. skiljanlega, fólk var lengi að byrja að treysta okkur og þessu verkefni, en núna er orðið meira að gera. Við vonum að við höfum sýnt að við séum traustsins verðug.“ segir Berglind Júlíusdóttir, hjúkrunarfræðingur og hópstjóri hjá Ungfrú Ragnheiði.

Fyrir skemmstu fengu þær svo nýjan sérútbúinn bíl til verkefnisins sem þær segja ómetanlega kærkominn. Rauði krossinn keypti bílinn, en ótilgreind félagasamtök sáu um að innrétta hann.  

„Áður vorum við í svona jeppling og aðstæður ekki endilega kjörnar fyrir sáraskiptingar eða alls konar fyrirspurnir sem við vorum að fá“ segir Berglind.

Meðbyr í samfélaginu gagnvart verkefninu

Þær segja að viðmót almennings gagnvart verkefninu sé almennt jákvætt. Þær segjast ekki verða varar við fordóma en þær séu þó reglulega spurðar að því hvers vegna þær séu að hjálpa fólki við að neyta fíkniefna. Tilgangur skaðaminnkunnarinnar sé ekki að koma fólki í meðferðarúrræði, heldur fyrst og fremst að draga úr skaða og sýkingum í tengslum við neyslu og sinna grunnheilbrigðisþjónustu. Það létti undir annarri heilbrigðisþjónustu. Þá sé ekki síst mikilvægt að veita fólki sáluhjálp og andlegan stuðning. 

Þær segjast finna fyrir meðbyr í samfélaginu. Fólk sé að leggja þeim lið með ýmsum hætti, svosem með því að prjóna fatnað til að gefa og elda kjötsúpu fyrir skjólstæðinga. Aðsókn í úrræðið hefur aukist til muna frá því að það tók til starfa.

„Við vorum alltaf bara tvisvar í viku, nú erum við með þrjár vaktir  í viku. Það var klárlega þörf á því. Að meðaltali erum við að hitta svona tvo til þrjá á hverri vakt. Þegar við byrjuðum árið 2018 var þetta bara búnaður sem við vorum að veita en núna hefur þetta þróast.  Nú erum við með miklu meiri næringu og það er fyrirtæki hér í bænum sem er farið að gefa okkur matarbakka, sem breytir öllu fyrir þau að fá heitan mat amk tvisvar í viku.“ segir Edda Ásgrímsdóttir, hjúkrunarfræðingur og hópstjóri hjá Ungfrú Ragnheiði.

Þungur vetur í vændum

Skjólstæðingar Ungfrú Ragnheiðar glíma við ýmiss konar vanda, bæði fjárhagslegan, félagslegan, heilbrigðis- og húsnæðisvanda.
Þrengingar í efnahagslífinu gætu hafi slæm áhrif á skjólstæðingana. Veturinn gæti reynst fólki erfiður.

„Það er svolítið slæmt hérna á Akureyri, það er ekkert neyðarúrræði fyrir þá sem búa á götunni á Akureyri, það veldur manni pínulítið 
áhyggjum,“ segir Berglind.

Fréttin var uppfærð 16.7. kl 12:10

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi