Tveir smitaðir komu frá áhættusvæði fyrir sjö dögum

15.07.2020 - 13:46
Mynd með færslu
 Mynd: Þórhildur Þorkelsdóttir - RÚV
Tveir Íslendingar, sem völdu að fara í sóttkví við komuna til landsins frá áhættusvæði, greindust með virkt kórónuveirusmit. Þeir komu til landsins fyrir sjö dögum og fóru í skimun eftir að hafa fengið einkenni COVID-19.

Þá hefur einn farþegi Norrænu greinst með smit en allir farþegar voru skimaðir áður en skipið lagði af stað frá Hirtshals í Danmörku. Norræna kemur til Seyðisfjarðar á morgun. Óvíst er hvort smitið er virkt eða óvirkt, en viðkomandi hefur ekki fundið fyrir einkennum COVID-19.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og sóttvarnalækni í dag.

Næsti upplýsingafundur Almannavarna verður á morgun. Þá bætast fjögur lönd einnig við lista öruggra landa. Ferðamenn frá Finnlandi, Noregi, Danmörku, Þýskalandi, Færeyjum og Grænandi geta þá komið til landsins án þess að fara í sýnatöku á landamærunum.

Alls voru 2.158 sýni greind í gær. Lang flest voru tekin í landamæraskimun og aðeins 140 á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans.

Ellefu eru í einangrun á Íslandi vegna COVID-19 og 80 í sóttkví. Síðan landamæraskimun hófst fyrir réttum mánuði síðan hafa 14 virk smit greinst hér á landi sem komið hafa erlendis frá. Ellefu smit hafa greinst hér á landi á sama tíma. Síðan skimun á landamærum hófst, 15. júní, hafa 38.756 sýni verið tekin.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi