Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Telur kærunefnd jafnréttismála fara út fyrir valdsviðið

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - Kveikur
Umboðsmaður Alþingis segir að kærunefnd jafnréttismála hafi ekki brugðist við athugasemdum sem henni hafa borist frá embættinu, þótt bent hafi verið á annmarka í störfum hennar og umboðsmaður gert athugasemdir við að hún færi út fyrir valdsvið sitt.

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, sendi forsætisráðherra bréf fyrir helgi í tilefni af frumvarpi ráðherra um endurskoðun laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna sem lagt hefur verið fram í samráðsgátt stjórnvalda. Í bréfinu reifar umboðsmaður athugasemdir sem embættið hefur komið á framfæri við kærunefnd jafnréttismála.

Í bréfinu tekur umboðsmaður dæmi frá því þegar nefndin úrskurðaði að forsætisráðherra hefði brotið jafnréttislög við ráðningu skrifstofustjóra árið 2011. Settur umboðsmaður gerði athugasemd við þetta í áliti 2013.

Ekki nefndarinnar að endurmeta hæfni umsækjenda

Í því máli hafi nefndin farið út fyrir valdsvið sitt þegar ráðningin var kærð, og svo virðist vera sem nefndin leysi gjarnan úr málum með sjálfstæðu mati á hæfni umsækjenda án þess að leggja mat á það hvaða hæfniskröfur hefðu falið í sér mismunum á grundvelli kyns. Það sé ekki verkefni kærunefndarinnar að endurmeta sjálfstætt hvern hefði átt að ráða í umrætt starf, heldur taka afstöðu hvort jafnréttislög hefðu verið brotin í ráðningarferlinu. Því hafði umfjöllun kærunefndar ekki verið í samræmi við lögbundið hlutverk hennar í málinu. 

Í bréfi umboðsmanns nú segir að þær athugasemdir virðist ekki hafa verið teknar til greina. Nefndin hafi haldið áfram að beita þeim aðferðum sem gagnrýnin beindist að í úrskurðum sínum og ekki breytt þeirri aðferðafræði sem úrskurðir hennar byggjast á.

Nauðsynlegt að skýra betur valdsvið og hlutverk nefndarinnar

Þess vegna telur umboðsmaður að nú, þegar unnið er að endurskoðun laganna, þurfi að skýra betur valdsvið og hlutverk kærunefndar jafnréttismála. Þá er einnig óljóst hvað felst í því að úrskurðir nefndarinnar séu bindandi. 

Hvergi í bréfi umboðsmanns er vikið að máli Lilju Alfreðsdóttur, menntamálaráðherra, sem hefur ákveðið að stefna umsækjanda til þess að fá hnekkt úrskurði kærunefndarinnar sem úrskurðaði að hún hefði brotið jafnréttislög með skipun í embætti ráðuneytisstjóra í nóvember.

Verði frumvarp forsætisráðherra að lögum þarf framvegis að stefna bæði nefndinni og umsækjanda til að fá úrskurði hnekkt.