Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Telur að ferðir Herjólfs þriðja séu ekki verkfallsbrot

15.07.2020 - 09:45
Mynd með færslu
 Mynd: Guðbjartur Ellert Jónsson
Starfsmenn sem ekki eru í Sjómannafélagi Íslands sigla Herjólfi þriðja þessar fjórar ferðir sem hann fer í dag. Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Vestmanneyjaferjunnar Herjólfs segir að ekki sé um verkfallsbrot að ræða.

Undirmenn um borð í Herjólfi eru í verkfalli í dag, sem er seinni dagur verkfalls en þriðja vinnustöðvun um borð í Herjólfi hefur verið boðuð eftir sex daga. 

„Við tókum ákvörðun um það að sigla gamla Herjólfi fjórar ferðir í dag til að mæta þeirri ábyrgð og þeirri skyldu sem á okkur hvílir að halda þessari þjóðbraut opinni. Við mönnuðum hana með okkar starfsmönnum sem eru ekki í Sjómannafélagi Íslands.“

Guðbjartur segir að þeir einu sem eru í verkfalli séu  félagsmenn í Sjómannafélagi Íslands aðrir séu í vinnu.

„Og ástæðan fyrir því að við förum á Herjólf þriðja er sú að við nýttum tækifærið á meðan verkfallið var að gera aðeins við nýja skipið.  Það eru hérna erlendir sérfræðingar sem að komu til landsins og eru að undirbúa lagfæringar. Nýja skipið fer í slipp í september. Þannig að við nýttum tímann og þeir fóru hér í viðgerðir og yfirferðir á bilunum sem hafa verið hurðum og í lyftu.“