Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Skoða að kæra siglingu gamla Herjólfs til félagsdóms

15.07.2020 - 14:49
Mynd með færslu
 Mynd: Herjólfur - Facebook
Ekki hefur verið tekin ákvörðun um það hvort sigling gamla Herjólfs milli lands og Eyja í dag verði kærð til félagsdóms. Bergur Þorkelsson formaður Sjómannafélagsins segir að félagið telji að siglingin sé verkfallsbrot og málið verði skoðað með lögfræðingi félagsins. Það verði tilbúið með ákvarðanir áður en þriðja vinnustöðvun í deilunni hefst 21. júní.

Sú vinnustöðvun verður í þrjá sólarhringa hafi samningar ekki náðst fyrir þann tíma. Undirmenn um borð í Herjólfi voru í verkfalli í gær og í dag, sem er önnur vinnustöðvunin sem beitt hefur verið í deilunni. 

Gamli Herjólfur sigldi frá Eyjum um hádegisbilið mannaður starfsmönnum sem ekki eru í Sjómannafélagi Íslands. Samkvæmt áætlun átti hann að sigla klukkan hálf tíu í morgun en fyrstu ferðinni var seinkað. Guðbjartur Ellert Jónsson, framkvæmdastjóri Herjólfs ohf, segir að fara hafi þurft yfir búnað í skipinu en einnig hafi vélstjóri sem var að leysa af hætt við að fara í ferðina.   

Kröfur Sjómannafélagsins eru meðal annars að stytta vinnutíma, minnka vinnuskyldu og fjölga þernum um borð. Frekari fundir hafa ekki verið boðaðir í deilunni.