Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ríkisstjóri Oklahoma og gestgjafi Trumps með COVID-19

Kevin Stitt, ríkisstjóri í Oklahoma
 Mynd: Wikimedia Commons
Kevin Stitt, ríkisstjóri í Oklahoma-ríki í Bandaríkjunum tilkynnti í dag að hann hefði greinst með kórónaveirusmit. Stitt var gestgjafi Donalds Trump forseta Bandaríkjanna á fyrsta kosningafundi forsetans sem haldinn var í borginni Tulsa í Oklahoma fyrir þremur vikum en segist fullviss um að hann hafi ekki verið smitaður á þeim tíma.

Kórónaveirusmitum hefur fjölgað hratt í Oklahoma-riki undanfarnar vikur og segja heilbrigðisyfirvöld í ríkinu að stórar samkomur á borð við kosningafund Trumps og fjölmenna mótmælafundi hafi hugsanlega aukið hættuna á smiti. 

Á rafrænum blaðamannafundi Stitts í dag, sagðist hann líklega vera fyrsti ríkisstjórinn í Bandaríkjunum sem greinist með kórónaveirusmit. „Ég var skimaður fyrir COVID-19 í gær og niðurstöðurnar voru jákvæðar,“ sagði Stitt á fundinum. 

Kevin Stitt er 47 ára gamall Repúblikani. Hann hefur ítrekað neitað að bera andlitsgrímu á almannafæri og bar ekki slíka grímu á kosningafundi Trumps í Tulsa, þrátt fyrir tilmæli þar um.