Myndaröð Rax kallast á ensku Arctic Heroes - Where the world is melting eða Hetjur heimskautsins - þar sem heimurinn er að bráðna. Á síðu keppninnar segir að það sé mat ljósmyndarans að grænlensku sleðahundarnir séu meðal mestu hetja norðurslóðanna. Með myndum sínum hylli hann bæði hundana og lífshætti á heimskautasvæðum. Tilveru hundanna og lífsháttanna sé ógnað vegna hlýnunar jarðar.
Verðlaunin eru meðal þeirra virtustu í heimi atvinnuljósmyndunar og sá 65 manna dómnefnd um að velja þá sem tilnefndir eru til þeirra. Tilkynnt verður um vinningshafa á verðlaunahátíð sem haldin verður í þýsku borginni Wetzlar í október og hlýtur hann peningaverðlaun, 40.000 evrur, auk ljósmyndabúnaðar.
Hér má sjá myndaröð Rax sem tilnefnd er til verðlaunanna.