Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rax tilnefndur fyrir sleðahundamyndir

Út er komin bókin Jökull eftir Ragnar Axelsson ljósmyndara
Ragnar Axelsson, Rax. Mynd: RÚV

Rax tilnefndur fyrir sleðahundamyndir

15.07.2020 - 20:48

Höfundar

Ljósmyndarinn Ragnar Axelsson, Rax, hefur verið tilnefndur til alþjóðlegu ljósmyndaverðlaunanna Leica Oskar Barnack Awards fyrir myndaröð sína af grænlenskum sleðahundum. Verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1979 og í ár eru tólf ljósmyndarar víðs vegar að úr heiminum tilnefndir til þeirra. 

Myndaröð Rax kallast á ensku Arctic Heroes - Where the world is melting eða Hetjur heimskautsins - þar sem heimurinn er að bráðna. Á síðu keppninnar segir að það sé mat ljósmyndarans að grænlensku sleðahundarnir séu meðal mestu hetja norðurslóðanna. Með myndum sínum hylli hann bæði hundana og lífshætti á heimskautasvæðum. Tilveru hundanna og lífsháttanna sé ógnað vegna hlýnunar jarðar.

Verðlaunin eru meðal þeirra virtustu í heimi atvinnuljósmyndunar og sá 65 manna dómnefnd um að velja þá sem tilnefndir eru til þeirra. Tilkynnt verður um vinningshafa á verðlaunahátíð sem haldin verður í þýsku borginni Wetzlar í október og hlýtur hann peningaverðlaun, 40.000 evrur, auk ljósmyndabúnaðar.

Hér má sjá myndaröð Rax sem tilnefnd er til verðlaunanna.