Lómatjarnargarður á Egilsstöðum í órækt

15.07.2020 - 09:18
Helsti skrúðgarðurinn á Egilsstöðum er í órækt, tjörnin full af gróðri og þar voru unnin skemmdarverk á trjám. Íbúar krefjast þess að garðinum verði sinnt betur og leiktæki sett upp fyrir börn.

Tjarnargarðurinn á Egilsstöðum eða Lómatjarnargarður á að heita skrúðgarður bæjarins. Gerð hans lauk árið 1997 á 50 ára afmæli Egilsstaðakauptúns. Síðan eru liðin 23 ár og má garðurinn muna sinn fífil fegri.

„Einu sinni var þetta falleg tjörn“

Undanfarið hafa íbúar kallað eftir umbótum og Alda Björg Lárusdóttir er þeirra á meðal. „Þegar ég labbaði inn í þennan garð fyrst þá hugsaði ég með mér: Þetta lítur út fyrir að vera garður þar sem það var einu sinni eitthvað gert. En hann hefur bara drabbast niður. Það eru óljósir göngustígar, grasið er illa farið, trén eru ekki vel hirt. Ég hef heyrt talað um að þessi garður ætti að vera skrúðgarður en hann hefur meira svona villiyfirbragð yfir sér. Það væri hægt að gera allt mögulegt. Tjörnin hún er orðin að mýri, einu sinni var þetta falleg tjörn,“ segir Alda Björg.

Við hittum fólk í garðinum bæði gesti og starfsmenn vinnuskóla Fljótsdalshéraðs.

„Hann er bara mjög fínn, hann er mjög stór, en það bara alveg vantar hluti í hann,“ segir Lilja Lind Torfadóttir, 13 ára.

„Það bara vantar leiktæki og ærslabelg og að bæta tjörnina,“ segir Hjálmar Helgi Rise Árnason, 14 ára.

 „Já, það væri rosalega gaman að hafa einhverja báta,“ segir Askur Örn Margrétarson, 13 ára.

„Mér finnst hann bara mjög flottur það kannski vantar eitthvað smá meira fyrir krakka,“ segir Þóra Jóna Þórarinsdóttir, 15 ára.

 „Það er hérna frisbí golf, folf, þannig að það er frábær byrjun, við viljum sjá meira, við viljum ekki bara nota þetta á 17. júní en það hefur lítið verið brugðist við. Allavega eins og er þá er þetta bara ógrisjaður garður sem mætti gera eitthvað skemmtilegt við,“ segir Alda Björg Lárusdóttir.

Skipulag í skoðun

Samkvæmt upplýsingum frá Fljótsdalshéraði er skipulag Lómatjarnargarðs og fleiri útivistarsvæða í skoðun. Salernisaðstöðu vantar í garðinn og verið er að meta hvort hentugast væri að setja upp margumtalaðan ærslabelg þar eða í Selskógi í útjaðri bæjarins. „Það er örugglega frábært að fá eitthvað gert í Selskógi líka. En það kemur ekki í staðinn fyrir þennan stað. Þessi staður er miðsvæðis. Hér eru hús allt í kring og ég held að þessi staður myndi nýtast mikið betur fyrir daglegt stuð hjá börnum og fullorðnum, segir Alda Björg.

Enginn fastráðinn garðyrkjufræðingur

Við hittum á skrúðgarðyrkjufræðing sem býr í Reykjavík en lítur til með garðinum annað slagið. Hún sér framfarir en líka afturför. Einhver hefur skemmt sér við að fletta berki af trjám bæði hegg og stóru stóru reynitré. „Tréð getur lifað þetta af en þessi grein er dauð og þá þarf bara að meta hvernig lítur tréð út þegar þessi grein er farin. Hér er aðallega verið að reyna að bæta við litum og taka klippingarnar svolítið föstum tökum. Það hefur vantað garðyrkjufræðing á Egilsstaði og garðurinn bar þess alveg merki. En þetta er allt að koma. Og vonandi núna með sameiginlegu sveitarfélagi þá verður ráðin góð fagmanneskja á svæðið. Þannig að þetta verður undir eftirliti allan ársins hring. Það er draumastaðan,“ segir Ása Jóhannsdóttir, skrúðgarðyrkjufræðingur.

Hér má lesa grein um sögu Lómatjarnargarðs eftir Braga Bergsson

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi