Lærir hvað þú hefur raunverulega gaman af þessu

Mynd: Mummi Lú / RÚV

Lærir hvað þú hefur raunverulega gaman af þessu

15.07.2020 - 19:30
Kvennalið Breiðabliks í fótbolta losnaði úr sóttkví á dögunum og hefur síðan haldið uppteknum hætti frá því í upphafi móts. Liðið hefur unnið alla leiki sína í sumar og stefnan er sett á Íslandsmeistaratitilinn.

Breiðablik vann sannfærandi 4-0 sigur á ÍBV í gær en leikurinn var liðsins fyrsti eftir tveggja vikna sóttkví eftir að COVID-19 smit greindust innan leikmannahóps þess. Áður hafði Breiðablik unnið Fylki í bikarkeppninni á föstudag. Liðið hefur unnið alla leiki sína í sumar og virðist sóttkvíin ekki hafa sett stórt strik í reikninginn.

„Þetta er ekki það langur tími, einhverjir tólf dagar, svo þetta var ekkert stórkostlegt. Eins og maður hefur sagt áður, þetta var eins og leiðinlegt landsleikjahlé. Þannig að maður hafði í sjálfu sér engar áhyggjur af formi eða neitt svoleiðis, maður hafði kannski frekar áhyggjur af því að við værum ekki að spila og smá áhyggjur af taktinum en við komum ágætlega út úr þessu,“ segir Þorsteinn Halldórsson, þjálfari Breiðabliks.

„Við vorum samviskusamar og vorum duglegar að æfa. Við fengum prógram frá styrktarþjálfaranum okkar, vorum bara samviskusamar,“ segir Berglind Björg Þorvaldsdóttir, framherji Blika.

Þétt leikjaplan fram undan

Breiðablik missti úr leiki á meðan sóttkvínni stóð og mun liðið því eiga þétt leikjaplan í sumar. Þorsteinn og Berglind kvarta þó ekki undan því.

„Núna lendum við í að spila á þriðjudag, á föstudag og svo aftur á þriðjudegi svo þetta verður svolítil törn. En eins og leikmenn segja alltaf, það er skemmtilegra að spila en að æfa. Það er reyndar ekkert að marka það held ég,“ segir Þorsteinn.

„Við erum á leið í svaka prógram núna en maður vill bara helst keppa, á sumrin, eins marga leiki og maður getur. Við erum bara mjög tilbúnar í það.“ segir Berglind.

Stefnan sett á titilinn

Breiðablik háði einvígi við Val um Íslandsmeistaratitilinn á síðustu leiktíð og varð að lúta í lægra haldi þrátt fyrir að tapa ekki leik. Í ár stefnir í annað einvígi sömu liða og Blikakonur vilja eðlilega aðra niðurstöðu en í fyrra.

„Við höfum sagt frá því í byrjun að okkar markmið er að vinna titilinn og það er náttúrulega bara planið.“ segir Berglind.

„Þú lærir ýmislegt á því að fá ekki að spila. Þú lærir til að mynda hvað þú hefur raunverulega gaman af þessu, hvað það gleður þig mikið að vera í íþróttinni. Það kannski veitir enn meiri ánægju og gleði þegar þú færð loksins að spila aftur.“ segir Þorsteinn.

Innslagið má sjá í spilaranum að ofan.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Katrín tryggði 10 KR-ingum fyrsta sigurinn

Fótbolti

Öruggur sigur Breiðabliks í Eyjum