Jarðskjálfti af stærð 2,7 varð við Krýsuvík laust eftir klukkan hálf fjögur síðdegis. Samkvæmt Veðurstofu Íslands fannst jarðskjálftinn á höfuðborgarsvæðinu.
Nokkur skjálftavirkni hefur verið á landinu að undanförnu. Jarðskjálftavirkni hefur verið viðvarandi á Reykjanesi undanfarna mánuði í tengslum við landris í nágrenni Grindavíkur. Skjálftahrina hefur sömuleiðis verið við mynni Eyjafjarðar frá því um miðjan júní. Sjálfvirkt jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar hefur staðsett yfir þrettán þúsund skjálfta á svæðinu. Þrír skjálftar yfir 5 að stærð hafa mælst í hrinunni.
Í gær mældist skjálfti af stærð 3,0 í grennd við Bárðarbungu. Jarðskjálfti af stærð 3,6 mældist á svipuðum slóðum í fyrradag.