Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hvöss suðaustanátt á sunnanverðu landinu í kvöld

15.07.2020 - 06:30
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Dýpkandi lægð frá Grænlandshafi stjórnar veðrinu á landinu næstu daga og gul veðurviðvörun er í gildi á miðhálendinu.

Veðurstofan spáir hægum vindum og dálítilli vætu víða um land í dag. Austlægri átt, 5-10 m/s seinni partinn. Hvassara undir Eyjafjöllum, eða 10-15 m/s og búast má við vindhviðum allt að 25 m/s. Vindur 13-18 m/s sunnan- og vestantil á miðhálendinu í kvöld og þar er í gildi gul veðurviðvörun. 

Rignir á vestanverðu landinu í dag. Þurrt að mestu á austanverðu landinu en þokuloft eða súld úti við norður- og austurströndina. Hiti 8-16 stig, hlýjast í innsveitum norðaustantil. 

Ferðamenn hvattir til að kynna sér veðurspár

Óvenju djúp lægð hreyfist norðaustur yfir landið á morgun og hinn. Búast má við rigningu í öllum landshlutum. Hlýjast og úrkomuminnst á norðaustanverðu landinu. Suðvestan 13-18 m/s við suðausturströndina en norðaustanátt 13-20 m/s norðvestantil. Ferðamenn eru hvattir til að kynna sér vel veðurspár. Grjóthrun og skriður geta orðið í fjalllendi þegar mikið rignir. Búast má við vatnavöxtum í ám. 

Áfram verður hlýjast og hægast fyrir austan á föstudag. Svalt á vestanverðu landinu, allhvöss eða hvöss norðanátt og rigning. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV