Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Heppnir geta fundið yfirgefna list á víðavangi

Mynd: Samsett mynd - aðsend mynd - Gu / Samsett mynd - aðsend mynd - Gu

Heppnir geta fundið yfirgefna list á víðavangi

15.07.2020 - 13:30

Höfundar

Myndlistarmaðurinn Guðmundur Óli Pálmason, eða Kuggur, tekur drungalegar ljósmyndir af íslenskri náttúru, og skilur þær eftir á víðavangi fyrir heppna vegfarendur. Sjálfur segist hann vera með hálfgert „eyðibýlablæti“.

Verkefni Guðmundar Óla ber yfirskriftina Yfirgefin list. Hann myndar íslenska náttúru; fjöll og firnindi, fossa og stöðuvötn og segist einna helst heillast af eyðibýlum. 

 

 

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - Guðmundur Óli P

Guðmundur Óli var í Síðdegisútvarpinu á Rás 2. Hann segir að hann vilji helst ekki vita of mikið um eyðibýlin sjálf og sögu þeirra, heldur leyfa ímyndunaraflinu að ráða. Hann vilji fá að spyrja sig spurninga á borð við af hverju húsið sé yfirgefið? Hvort húseigendur hafi látist eða einfaldlega yfirgefið húsið? Og þá hvers vegna enginn tók við því. Það leynist fegurð í dulúðinni.

Ljósmyndirnar sem Guðmundur Óli tekur á sjaldgæfa tegund af Polaroid-filmum, skilur hann svo eftir á víðavangi um land allt, í námunda við myndefnið sjálft. Hver sem á leið hjá, eða gerir sér ferð á staðinn, gæti því orðið heppinn og rambað á ljósmynd. 

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - Guðmundur Óli P

Lokaafurðin er svo svokölluð „peel apart“ ljósmynd, sem þarf að flysja í sundur til að myndin komi í ljós. Með verkefninu vill Guðmundur Óli skapa margs konar tengingu, bæði tengja vegfarendur staðnum og tengjast sjálfur listinni. Hann bendir þó á að áhugasamir, sem ekki hyggja á ferðalög en vilja sjá, eða eignast myndirnar, geti nálgast þær á heimasíðu hans. 

Guðmundur Óli hefur þegar komið þremur ljósmyndum fyrir og lofar að þær verði fleiri. Hann segist ætla að halda áfram með verkefnið í sumar og jafnvel í vetur, eða eins lengi og hann nenni því, og jafnvel færa það einnig út fyrir landsteinana.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Metnaðarfull ljósmyndun að hverfa úr dagblöðum

Myndlist

Ljósmyndir gegn ofbeldi

Tækni og vísindi

Konan sem átti mikilvægan þátt í ljósmyndinni

Bókmenntir

Fjölmörg spennandi eyðibýli