Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Hafa getað leyst úr fjölda mála fyrir neytendur

15.07.2020 - 13:18
Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd: RÚV
Tekist hefur að leysa úr fjölda mála sem bárust Neytandasamtökunum í kjölfar faraldurs kórónuveiru. Reiknað er með færri ferðatengdum málum eftir sumarið en áður, því flestar kvartanir að hausti tengist ferðum til útlanda.

Málum sem bárust til Neytandasamtakanna fjölgaði mikið í kjölfar faraldursins og voru ferðamál þar mjög áberandi.

Mikil vinna í að tryggja endurgreiðslu vegna pakkaferða

Brynhildur Pétursdóttir, framkvæmdastjóri samtakanna, segir að tekist hafi að leysa úr flestum málum. „Það má segja að mikið af okkar vinnu hafi farið í að, fyrst mótmæla frumvarpi sem í rauninni átti að skylda neytendur til að taka við inneignarnótum vegn pakkaferða, sem höfðu fallið niður. Sem betur fer fór það fraumvarp ekki í gegn og sú leið sem var farin, sem við höfðum lagt til í upphafi, hún mun vonandi tryggja það að fólk fær endurgreiðslu.“

Kvartað út af þjónustu sem féll niður vegna COVID-19

Enn berist kvartanir frá neytendum vegna ýmiss konar þjónustu sem féll niður vegna COVID-19. „Þetta voru nokkur svona mál þar sem námskeið voru jafnvel bara haldin á netinu en neytendur sættu sig ekki við það, sem og líkamstæktarstöðvar. En ég held að í flestum tilfellium þá hafi nú þetta blessast,“ segir hún.

Á von á færri kvörtunum eftir sumarið en áður

Neytendasamtökin fá jafnan mikið af málum inn á sitt borð að hausti sem tengjast ferðalögum. Brynhildur telur að þar sem margir hafi valið að ferðast innanlands fækki þessum málum. „Flest mál sem koma að hausti snúa að pakkaferðum og ferðum Íslendinga erlendis. En við vitum auðvitað aldrei hvað gerist. Við vonum það bara að Íslendingar séu að ferðast núna innanlads og seljendur séu að veita bara góða þjónustu og allir að standa við sitt.“