Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hækka álögur í Covid-faraldri

15.07.2020 - 19:44
Mynd: RÚV/Sigurður / RÚV/Sigurður
Erlendar bókunarsíður hafa hækkað þóknunargjöld á íslensk ferðaþjónustufyrirtæki á sama tíma og eftirspurn hefur stórlega dregist saman. Íslensk ferðaþjónusta greiðir milljarða króna til erlendra fyrirtækja á ári hverju.

Fæstir fara í ferðalög án þess að nýta sér bókunarsíður á netinu, jafnt í leit að hóteli, bílaleigubíl eða afþreyingu. Eru þetta síður eins og Booking.com, Expedia, TripAdvisor og fleiri. Ferðaþjónustufyrirtæki greiða síðunum þóknanir, sem eru hlutfall af hverri bókun.

Nýta sér ástandið

Algeng grunnþóknun er 15 prósent en síðurnar nota alls kyns aðferðir til að hækka hana. Þannig þarf að greiða aukalega til að lenda ofar í leitarniðurstöðum og þess háttar. Þessar þóknanir hafa hækkað á undanförnum mánuðum, þótt ferðaþjónusta um allan heim glími við vanda vegna Covid-19. „Þeir virðast vera að nýta sér ástandið ef eitthvað er sem er kannski þvert á það sem maður hefði haldið að ætti að vera málið í þeirri stöðu sem ferðaþjónustan hefur staðið frammi fyrir undanfarna mánuði,“ segir Inga Rós Antoníusdóttir, sérfræðingur hjá Ferðamálstofu.

Allt að 30 prósenta þóknun

Samningur sem fréttastofa hefur undir höndum sýnir þetta, en skilmálar samningsins setja ferðaþjónustufyrirtækjum einnig ströng skilyrði um hvernig þeir hagi sínum rekstri. Um verulega fjármuni er að ræða fyrir íslenska ferðaþjónustu. „Það er verið að borga, 20, 25, jafnvel 30 prósenta þóknun til bókunarfyrirtækjanna sem fer úr landi, þá er það mjög blóðugt fyrir íslenska ferðaþjónustu.“

Hermann Valsson, ferðamála- og kerfisfræðingur, segir mikla fjármuni undir. „Ef við tökum bara 2018 sem við höfum nokkuð góðar tölur yfir þá eru hótelin og gistihúsin, þau hafa verið að missa sjö til níu milljarða. Ferðaþjónustan í heild sinni, við höfum verið að áætla 15 til 18 milljarða.“

Glatað tækifæri í innanlandsátaki

Vissulega má líta á hluta þessarar fjárhæðar sem markaðsstarf, enda bókunarsíðurnar risastór auglýsingagluggi og mörg fyrirtæki sem geta ekki án þeirra verið. En nú, þegar langflestir ferðamenn eru Íslendingar að versla við ferðaþjónustufyrirtæki sem þurfa á hverri krónu að halda, þykir mörgum að hvetja þurfi Íslendinga enn frekar til að panta þjónustuna beint af ferðaþjónustufyrirtækjunum.  „Það er að borga þarna 20, 22 prósent beint til Bandaríkjanna sem fer í nýsköpun þar í stað þess að þessi peningur verði eftir inni í okkar hagkerfi og það er mjög alvarlegt mál.“

Bæði neytendur og fyrirtæki geta því gert betur, segir Inga Rós. „Það er kannski sorglegt að hugsa til þess að það séu ofboðslega mörg ferðaþjónustufyrirtæki á Íslandi sem bjóða ekki upp á aðrar bókunarleiðir en í gegnum þessar margumtöluðu bókunarsíður.“

Magnús Geir Eyjólfsson