Gul viðvörun í kvöld, nótt og á morgun

15.07.2020 - 22:12
Veðurstofa Íslands hefur gefið út gula viðvörun vegna veðurs á Breiðafirði, Vestfjörðum, Ströndum, Norðurlandi vestra og miðhálendi. Spáð er allhvössum eða hvössum vindi á hálendinu í kvöld og nótt, og á norðvestanverðu landinu á morgun. Þessu fylgir talsverð rigning sunnan- og vestanlands og mikil úrkoma á Vestfjörðum og Ströndum á morgun með auknum líkum á flóðum og skriðuföllum.

Veðurhorfur á landinu til miðnættis annað kvöld eru sem hér segir: Austan og suðaustan 8-13 m/s, en 13-18 á S-verðu hálendinu. Rigning um allt land og talsverð úrkoma vestanlands.

Vaxandi norðaustanátt norðvestantil á landinu á morgun, 13-20 m/s síðdegis og suðvestan 13-18 við suðausturströndina. Mun hægari vindur annars staðar, en hvessir suðvestanlands um kvöldið.

Áfram verður vætusamt og talsverð eða mikil rigning á Vestfjörðum og Ströndum, samkvæmt spá Veðurstofu. Hiti 10 til 15 stig, en 5 til 10 á Vestfjörðum. Horfur á landinu næstu daga: Nokkuð hvöss norðanátt fram á helgi, með talsverðri rigningu norðantil á landinu og slyddu eða snjókomu til fjalla, en úrkomulítið sunnan heiða og hiti að 14 stigum.

Hægur vindur í næstu viku, skýjað með köflum og líkur á síðdegisskúrum. Hiti 8 til 15 stig

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi