Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Gamli Herjólfur siglir í dag

15.07.2020 - 08:40
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Herjólfur III mun sigla fjórar ferðir milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Herjólfi ohf. á Facebook.

„Það er mat framkvæmdarstjórnar Herjólfs ohf. að tryggja þurfi með óyggjandi hætti öruggar samgöngur milli Vestmannaeyja og lands enda er þetta eina samgöngukerfið sem tryggir aðgengi íbúa og lögaðila að nauðsynlegri þjónustu,“ segir í tilkynningunni. 

Tveggja daga verkfall undirmanna á Herjólfi hófst á miðnætti aðfaranótt þriðjudags og stendur því enn yfir. Þeir fóru í eins dags verkfall í síðustu viku og hafa boðað þriggja daga verkfall í næstu viku ef samningar nást ekki í kjaradeilu útgerðar Herjólfs og Sjómannafélags Íslands.

Í tilkynningu Herjólfs ohf. er tekið fram að undirmenn í áhöfn Herjólfs III, sem siglir í dag, komi úr röðum annarra stéttarfélaga en Sjómannafélagi Íslands. 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV