Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Gamli Herjólfur kominn til Landeyjahafnar

15.07.2020 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Herjólfur þriðji, sem átti að sigla frá Eyjum klukkan hálf tíu í morgun, hefur ekki enn lagt úr höfn. Ferðin er sú fyrsta af fjórum sem farnar verða í dag. Starfsmaður Herjólfs ohf. og hafnsögumaður í Eyjum staðfesta þetta í samtali við fréttastofu.

Herjólfur siglir ekki í dag vegna verkfalls starfsmanna. Í morgun var tilkynnt um að gamli Herjólfur, Herjólfur III, myndi sinna samgöngum milli Eyja og Landeyjahafnar í dag. 

Fréttastofa náði ekki tali af Guðbjarti Ellerti Jónssyni, framkvæmdastjóra Herjólfs ohf., en hann sagði í samtali við mbl.is að ástæðan fyrir seinkuninni sé sú að Herjólfur þriðji hafi ekki verið færður lengi. Hann sagði að skipið myndi sigla af stað hvað á hverju. 

Uppfært kl. 13:28:

Herjólfur er kominn í höfn í Landeyjum. Hann lagði af stað frá Eyjum rétt fyrir klukkan eitt.