Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Gamli Herjólfur farinn að sigla eftir seinkun í morgun

Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Gamli Herjólfur lagði úr höfn í Eyjum skömmu fyrir klukkan eitt í dag. Brottför var áætluð klukkan hálf tíu en seinkaði um tæplega þrjá og hálfan tíma. Herjólfur ohf. tilkynnti að gamli Herjólfur, Herjólfur III, myndi sigla þrjár ferðir fram og til baka frá Vestmannaeyjum í dag.

Tveggja daga verkfall undirmanna á Herjólfi hófst á miðnætti aðfaranótt þriðjudags og stendur því enn yfir. Þeir fóru í eins dags verkfall í síðustu viku og hafa boðað þriggja daga verkfall í næstu viku ef samningar nást ekki í kjaradeilu útgerðar Herjólfs og Sjómannafélags Íslands.

Gamli Herjólfur kom í höfn í Landeyjum rétt fyrir klukkan hálf tvö í dag og er nú þar við bryggju. Tvær ferðir eru áætlaðar frá Vestmannaeyjum í dag, klukkan fimm og hálf átta.